Guðmundur orðinn leikja- og markahæstur
Þó að úrslitin í leiknum gegn Grindavík hafi ekki verið hagstæð varð leikurinn heldur betur sögulegur fyrir knattspyrnulið Keflavíkur. Guðmundur Steinarsson sló leikjamet Keflavíkur í efstu deild með því að leika sinn 215. leik og pilturinn notaði tækifærið og bætti líka markamet félagsins í efstu deild þegar hann skoraði sitt 73. mark.
Það er vel við hæfi að Guðmundur eigi nú þessi met einn og óstuddur því drengurinn er Keflvíkingur í húð og hár og tengist knattspyrnunni í Keflavík sterkum böndum. Faðir Guðmundur er Steinar Jóhannsson sem átti einmitt markametið áður en hann skoraði 72 mörk í 139 leikjum fyrir Keflavík á árunum 1969 til 1982. Móðir Guðmundar, Sigurlaug Kristinsdóttir, var á sínum tíma í stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur og Jóhann, bróðir Guðmundar, lék á sínum tíma 24 leiki með meistaraflokki Keflavíkur, þar af fimm leiki í efstu deild. Og fjölskyldutengslin halda áfram en Jón Jóhannsson, föðurbróðir Guðmundar, skoraði 24 mörk fyrir Keflavík í efstu deild á árunum 1963 til 1970. Helsti markaskorari Keflavíkur fyrstu árin sem liðið lék á Íslandsmótinu var svo Högni Gunnlaugsson, afabróðir Guðmundar, en hann skoraði 19 mörk fyrir Keflavík í efstu deild. Guðmundur og nánustu ættingjar hafa því skorað 188 af þeim 1114 mörkum sem Keflavík hefur skorað í efstu deild frá upphafi eða um 17%, sem er óneitanlega vel að verki staðið.
Á myndunum hér að neðan má sjá markið sögulega en myndirnar tók Eygló Eyjólfsdóttir.