Fréttir

Knattspyrna | 7. október 2005

Guðmundur Steinars OLÍS-leikmaður sumarsins

Í hófi sem Knattspyrnudeild Keflavíkur stóð fyrir með styrktaraðilum deildarinn sl. fimmtudag útnefndi OLÍS Guðmund Steinarsson fyrirliða Keflavíkur OLÍS-leikmann ársins.  Guðmundur er vel að þessum heiðri kominn og átti mjög gott tímabil heilt yfir.  Ekki er vafi í mínum huga að þessi viðurkenning og frammistaða hans í sumar mun koma Guðmundi og Keflavík til góða næsta sumar.  Knattspyrnudeild afhenti fyrirtækjum og einstaklingum þakklætisvott fyrir stuðning og framlag þeirra til deildarinnar í sumar.  Þá afhenti

Knattspyrnudeildin í fyrsta skipti „Fréttagyðjuna“, farandgrip sem Sparisjóðurinn í Keflavík gaf.  Fréttagyðjan er handa þeim einstaklingi eða fjölmiðli sem skarar framúr í umfjöllun almennt um knattspyrnuna á Íslandi að mati Knattspyrnudeildar Keflavíkur.  Í fyrsta skipti sem Fréttagyðjan var afhent voru það íþróttafréttamenn á Stöð 2 og Sýn sem fengu heiðurinn og eru þeir vel að sæmdinni komnir að okkar mati. 

Meðal einstaklinga sem fengu viðurkenningu voru Guðmann Kristþórsson, ritstjóri heimasíðunnar okkar.  Guðmann hefur verið óþreytandi við að halda úti síðunni en lipurð og ljúfmennska einkennir allt hans starf fyrir Keflavík og þökkum við honum fyrir það.  Hjónin Jón Örvar Arason og Eygló Eyjólfsdóttir gáfu Knattspyrnudeild Keflavíkur tæplega 4.000 ljósmyndir sem þau hjón hafa tekið á þessu ári úr starfi deildarinnar.  Mest er það tengt meistaraflokki karla eins og fjölmargir hafa séð á heimasíðu okkar.  Ekki síst vegna þeirrar miklu vinnu og áhuga sem þau hjón hafa sýnt starfi Knattspyrnudeildarinnar hefur heimasíðan verið jafn lifandi og skemmtileg eins og raun ber vitni.  Má nefna að eftir hvern leik hafa þau hjón útbúið myndaseríur inn á síðuna og oftar en ekki unnið langt fram eftir nóttum svo allt verði tilbúið daginn eftir leik.  Við þökkum þeim kærlega fyrir.  Fyrirtækjum og öllum stuðningsmönnum þökkum við fyrir sumarið.  ási


Myndir: Steinar Sigtryggsson frá OLÍS afhenti Guðmundi farandbikar og eignarbikar sem OLÍS-leikmaður sumarsins. 
Hilmar Björnsson tók við viðurkenningu fyrir hönd Stöðvar 2 og Sýnar.
(Myndir: Páll Ketilsson / 
Víkurfréttir)