Guðmundur upp fyrir Gest
Leikurinn gegn Fram á fimmtudaginn var þriðji deildarleikur Guðmundar Steinarssonar í sumar. Leikurinn var jafnframt 173. leikur Guðmundar fyrir Keflavík í efstu deild og er hann orðinn fimmti leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Hann er kominn upp fyrir Gest Gylfason sem lék á sínum tíma 172 leiki fyrir Keflavík og er reyndar enn að með nágrönnum okkar í Njarðvík. Það er ekki langt í næstu menn fyrir ofan en þeir Gunnar Oddsson og Óli Þór Magnússon eru með 177 leiki og það ætti því ekki að vera langt í að Guðmundur verði kominn í 3. sæti listans. Efstir eru hins vegar þeir Sigurður Björgvinsson með 214 leiki og Þorsteinn Bjarnason með 180 stykki.
Þess má geta að Guðmundur lék sinn fyrsta leik í efstu deild þann 29. ágúst árið 1996 þegar Keflavík vann Val 2-1 á heimavelli. Hann á einnig 11 leiki að baki með Fram og hefur því alls leikið 184 leiki í efstu deild og skorað 64 mörk. Auk leikjanna í efstu deild hefur Guðmundur leikið 30 bikarleiki fyrir Keflavík (18 mörk) og 9 leiki í Evrópukeppnum (3 mörk).
Guðmundur mættur til leiks gegn Fylki á dögunum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)