Guðný í úrvalsliði Landsbankadeildarinnar
Guðný Petrína Þórðardóttir, framherji Keflavíkur, var valin í úrvalslið 1.-6. umferðar Landsbankadeildar kvenna. Viðurkenningar fyrir fyrstu umferðir deildarinnar voru afhentar í gær en sérstök dómnefnd á vegum KSÍ sér um valið. Í úrvalsliðinu eru sex Valsstúlkur, þrjár úr KR og einn leikmaður Fylkis auk Guðnýjar. Besti leikmaðurinn er Margrét Lára Viðarsdóttir úr Val, besti þjálfarinn er Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Valsliðsins og Fylkir fékk stuðningsmannaverðlaunin að þessu sinni. Hægt er að sjá meira um viðurkenningarnar á vef KSÍ.
Guðný Petrína er vel að þessari viðurkenningu komin. Hún hefur verið að leika í fremstu víglínu með Keflavík í sumar og er nú næstmarkahæst í Landsbankadeildinni með 7 mörk. Guðný hefur einnig verið í landsliðshópi Íslands, hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Englandi í vor og var varamaður í sigurleikjunum gegn Frakklandi og Serbíu á dögunum. Guðný gekk til liðs við Keflavík árið 2004 ásamt Björgu systur sinni en hún hafði áður leikið með Val og Breiðabliki í efstu deild. Guðný hefur leikið 46 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað 35 mörk. Auk þess hefur hún leikið sex bikarleiki og skorað tvö mörk. Við óskum Guðnýju til hamingju með þessa skemmtilegu viðurkenningu og óskum henni að sjálfsögðu góðs gengis með Keflavík og landsliðinu.
Mynd: Verðlaunahafarnir saman komnir (Mynd af vef KSÍ).
Guðný á fleygiferð í leik með Keflavík í sumar.
(Mynd: Víkurfréttir)