Gummi fékk vítapunktinn!
Eins og fram kom hér á síðunni hélt Guðmundur "Gvendur" Steinarsson upp á þrítugsafmæli sitt á dögunum. Drengurinn hélt að sjálfsögðu veglega veislu í tilefni afmælisins þar sem vinir og vandamenn fögnuðu með afmælisbarninu. Að sjálfsögðu mættu gestirnir með glæsilegar gjafir og eins og við var að búast tengdust margar þeirra knattspyrnunni sem hefur auðvitað spilað stórt hlutverk í lífi Guðmundar. Einn gestanna nýtti sér að verið er að endurbæta Keflavíkurvöll um þessar mundir og gaf afmælisdrengnum smáskika af gamla grasinu. Og skikinn var vandlega valinn því Guðmundur er nú stoltur eigandi vítapunktsins sem var nær Hringbrautinni. Þessi hluti vallarins var ekki valinn af tilviljun enda á Guðmundur misgóðar minningar frá þessu svæði. Eins og einhverjir muna kannski var það einmitt á þessum ákveðna vítapunkti sem tvö víti fóru forgörðum í sama leiknum hjá Keflavík í sumar og það þarf ekki að nefna hver tók spyrnurnar. Við óskum Guðmundi til hamingju með afmælið og gjöfina og væntum þess að vítanýtingin batni til muna hjá honum fyrst hann er kominn með æfingaaðstöðu heima.
Mynd: Úr einkasafni.