Fréttir

Hafsteinn Guðmundsson 1923-2012
Knattspyrna | 10. maí 2012

Hafsteinn Guðmundsson 1923-2012

Hafsteinn Guðmundsson fæddist í Reykjavík 1. október 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi í Reykjanesbæ 29. apríl 2012. Útför Hafsteins fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 10. maí 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Ég minnist Hafsteins með miklum hlýhug, hann var  vanur að kíkja við á skrifstofu knattspyrnudeildar reglulega  í spjall og að sjálfsögðu var talað um fótbolta. Hann hafði miklar og sterkar skoðanir á liðinu sínu og leikmönnum.  Þar var rætt um síðasta leik Keflavíkur og hvernig liðinu hafi gengið. Hann þekkti flesta leikmennina með nöfnum og það  var greinilegt á hans tali að hann var enn fullur af áhuga á knattspyrnu.  Hann hafði einnig mikinn áhuga á aðstöðumálum knattspyrnunnar og tjáði sig óhikað um það.

Hafsteinn var einn af þessum mönnum sem gleymast seint, hann ruddi brautina í íþróttamálum hér í Keflavík og  var mikill leiðtogi eins og hans ferilskrá ber glöggt vitni um. Síðasta skiptið sem ég hitti hann var þegar ég heimsótti hann um síðustu jól og færði honum litla gjöf frá knattspyrnudeildinni og ég veit að það gladdi hann mikið.

Hafsteini voru veittar margar viðurkenningar í gegnum árin og var hann meðal annars sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, heiðurskrossi ÍSÍ, heiðurskrossi KSÍ, gullmerki ÍBK, heiðursgullmerki Keflavíkur, gullmerki knattspyrnudeildar Keflavíkur og var heiðursfélagi í UMFK. Hafsteinn lék á sínum tíma með landsliði Íslands, meistaraflokki Vals í knattspyrnu og síðar með ÍBK Hafsteinn var formaður ÍBK frá stofnun 1956 og til 1975, formaður UMFK 1978-1981 í stjórn KSÍ 1968-1972, í landsliðsnefnd KSÍ og síðan einvaldur 1969-1973.

Fjölskyldu  Hafsteins vil ég senda okkar innilegustu samúðarkveðjur.

f.h. Knattspyrnudeildar Keflavíkur.
Þorsteinn Magnússon, formaður