Hafsteinn í Víði
Hafsteinn Rúnarsson hefur gengið til liðs við Víði í Garði. Hafsteinn hefur ekki verið í leikmannahópnum hjá Keflavík í undanförnum leikjum en hann er auk þess á leið í nám erlendis áður en leiktímabilinu lýkur. Hafsteinn ákvað því að leika með Víði í 2. deildinni þangað til hann heldur út og hafa félögin náð samkomulagi um félagaskiptin sem þegar er búið að ganga frá. Hafsteinn leikur því sinn fyrsta leik með Víði strax í kvöld þegar ÍR-ingar heimsækja Garðinn. Þess má geta að þjálfarar Víðisliðins eru fyrrverandi leikmenn Keflavíkur, þeir Karl Finnbogason og Kristinn Guðbrandsson. Auk þess leika nokkrir fyrrverandi leikmenn okkar nú með Víði.Hafsteinn er tvítugur og hefur alltaf leikið með Keflavík, bæði í yngri flokkum og síðan í meistaraflokki. Hann hefur leikið 5 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað eitt mark auk eins leiks í bikarkeppninni.
Við óskum Hafsteini góðs gengis á nýjum vígstöðvum og reiknum með að sjá hann aftur í Keflavíkurliðinu fyrr en síðar.