Hafsteinn sæmdur riddarakrossi
Forseti Íslands sæmdi í gær ellefu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Meðal þeirra var Hafsteinn Guðmundsson sem oft hefur verið nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík. Hann hlaut riddarakross fyrir forystu á vettvangi íþróttastarfs á Suðurnesjum og á landsvísu.
Hafsteinn Guðmundsson lék fjóra landsleiki í knattspyrnu á árunum 1946-1951, var stjórnarmaður í KSÍ 1968-1971, landsliðsnefndarmaður og síðar landsliðseinvaldur eins og það var kallað og formaður ÍBK til fjölda ára. Hafsteinn var sæmdur heiðurskrossi KSÍ á 50 ára afmæli sínu í október 1973 en heiðurskrossinn er æðsta heiðursmerki KSÍ og veitist aðeins þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn.
Það er óhætt að segja að Hafsteinn tengist sögu knattspyrnunnar í Keflavík órjúfanlegum böndum. Hann var leikmaður liðsins þegar það tók fyrst þátt í Íslandsmótinu árið 1956 og var jafnframt þjálfari liðsins á árunum 1956-1960. Hafsteinn varð síðan formaður ÍBK og var við stjórnvölinn á meðan svokölluð gullöld knattspyrnunnar í Keflavík stóð yfir en liðið varð þá fjórum Íslandsmeistari og lék gegn nokkrum af þekktustu félögum álfunnar í Evrópukeppnum.
Við óskum Hafsteini hjartanlega til hamingju með þennan verðskuldaða heiður.
Frá athöfninni á Bessastöðum. Hafsteinn er þriðji frá vinstri, við hlið forseta Íslands.
(Mynd af vef forsetaembættisins)