Haraldur Freyr knattspyrnumaður Keflavíkur
Íþróttamaður Keflavíkur var útnefndur í hófi þriðjudaginn 28. desember og varð körfuknattleiksmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson fyrir valinu. Einnig voru útnefndir íþróttamenn einstakra deilda og það er Haraldur Freyr Guðmundsson sem er knattspyrnumaður Keflavíkur árið 2010. Haraldur var fyrirliði meistaraflokks karla á árinu og var valinn besti leikmaður liðsins í sumar. Hann var einnig valinn í úrvalslið Morgunblaðsins í Pepsi-deild karla. Haraldur Freyr var valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir leik gegn Andorra en hann á að baki tvo A-landsleiki. Ekki má gleyma að Haraldur leiddi lið Keflavíkur til Íslandsmeistaratitils í Futsal á árinu og er í landsliðshópnum sem var valinn undir lok ársins.
Haraldur Freyr tekur við viðurkenningu sinni úr hendi Einars Haraldssonar, formanns Keflavíkur.
(Mynd frá Víkurfréttum)