Fréttir

Haraldur Freyr og Anna Rún leikmenn ársins
Knattspyrna | 7. október 2014

Haraldur Freyr og Anna Rún leikmenn ársins

Lokahóf Knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldið í félagsheimilinu við Sunnubraut laugardaginn 4. október.  Þar voru veittar viðurkenningar fyrir frammistöðu sumarsins hjá meistaraflokki og 2. flokki karla og kvenna.  Auk þess fengu aðstandendur liðanna þakklætisvott fyrir sín störf í sumar.

Haraldur Freyr Guðmundsson var valinn leikmaður ársins hjá meistaraflokki karla og Elías Már Ómarsson er efnilegastur þetta árið.  Þess má geta að þetta er í þriðja sinn sem Haraldur Freyr er leikmaður ársins hjá Keflavík en hann hlaut þann titil áður árin 2002 og 2010.  Hörður Sveinsson fékk gullskóinn en hann var markahæstti leikmaður liðsins í sumar og Elías Már Ómarsson fékk silfurskóinn en hann varð næst markahæstur.  Magnús Þórir Mathíasson fékk viðurkenningu fyrir mark ársins sem kom í Laugardalnum gegn Val í Pepsi-deildinni.  Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir fjölda leikja fyrir Keflavík á Íslandsmótinu og að þessu sinni fengu reynsluboltarnir Haraldur Freyr Guðmundsson, Hörður Sveinsson og Jóhann Birnir Guðmundsson allir viðurkenningar fyrir 150 leiki, Einar Orri Einarsson fyrir 100 leiki og Frans Elvarsson fékk viðurkenningu fyrir 50 leiki.

Hjá meistaraflokki kvenna var Anna Rún Jóhannsdóttir besti leikmaðurinn, Sólveig Lind Magnúsdóttir var valin efnilegust og Sigurrós Eir Guðmundsdóttir besti félaginn.  Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður liðsins í sumar og Marín Guðmundsdóttir fékk silfurskóinn.  Þá fengu Jóna Kristbjörg Stefánsdóttir og Sigurrós Eir Guðmundsdóttir viðurkenningar fyrir 50 leiki.

Í 2. flokki karla var Leonard Sigurðsson leikmaður ársins en Fannar Orri Sævarsson efnilegastur.  Adam Sigurðsson var besti félaginn.

Marín Guðmundsdóttir var valin best hjá 2. flokki kvenna.  Þar var Ljiridona Osmani efnilegust og Anita Ösp Ingólfsdóttir besti félaginn.

Hjá eldri flokki varð Ingvar Georgsson fyrir valinu sem leikmaður ársins og Jóhann Steinarsson fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður liðsins.

Már Gunnarsson fékk sérstaka viðurkenningu sem stuðningsmaður ársins og fékk að launum Keflavíkurtreyju.

Í myndasafninu eru nokkrar myndir frá lokahófinu í boði Jóns Örvars.