Fréttir

Knattspyrna | 28. júlí 2009

Haraldur Freyr til Keflavíkur

Haraldur Freyr Guðmundsson er genginn til liðs við Keflavík og hefur skrifað undir samning út þetta tímabil.  Í samningum felst einnig að Keflavík getur framlengt samninginn fari Haraldur ekki út í atvinnumennsku að tímabilinu loknu.  Það þarf ekki að kynna Harald Frey fyrir stuðningsmönnum okkar enda er pilturinn Keflvíkingur í húð og hár.  Hann lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1999 og hefur leikið 62 deildarleiki (7 mörk) og 12 bikarleiki (2 mörk) fyrir félagið.  Haraldur varð bikarmeistari með Keflavík árið 2004 en gekk þá til liðs við norska liðið Aalesund þar sem hann lék þar til í vetur.  Þá gekk hann til liðs við Apollon Limassol á Kýpur en félagið þurfti að rifta samningum sínum við Harald og fleiri leikmenn liðsins vegna fjárhagsörðugleika.  Það er okkur sönn ánægja að bjóða Harald Frey velkominn aftur í herbúðir Keflavíkur en síðastliðið ár hafa fjölmargir Keflvíkingar snúið heim í heiðardalinn.  Þetta eru þeir Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson, Jóhann B. Guðmundsson, Haukur Ingi Guðnason, Guðmundur Steinarsson og nú Haraldur.

Myndir: Jón Örvar