Haraldur Freyr til Keflavíkur
Haraldur Freyr Guðmundsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Keflavík og verður því hjá félaginu til ársloka 2013. Haraldur gekk til liðs við Start í Noregi síðasta sumar en hefur nú snúið aftur til Keflavíkur.
Haraldur Freyr er þrítugur og lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1999. Hann lék með Ålesund í Noregi og Apollon Limassol á Kýpur á árunum 2005-2009 en kom aftur til Keflavíkur árið 2009. Haraldur var fyrirliði liðsins síðasta sumar en fór síðan til Start í ágúst. Hann hefur leikið 106 deildarleiki fyrir Keflavík (8 mörk), 19 bikarleiki (4 mörk) og 48 leiki í deildarbikarnum (2 mörk) og var valinn leikmaður ársins hjá Keflavík árið 2010. Haraldur hefur leikið tvo landsleiki auk leikja með U-21 árs og U-19 ára landsliðunum.
Það er auðvitað mikill styrkur fyrir Keflavík að fá Harald Frey aftur í sínar raðir og ljóst að að það mun skipta miklu næsta keppnistímabil að hafa þennan öfluga leikmann og góða félaga í okkar röðum.
Þorsteinn formaður, Haraldur Freyr og Zoran þjálfari.
Í tilefni árstíðarinnar var skrifað undir í flugeldasölu Keflavíkur við Iðavelli...
(Myndir: Jón Örvar)