Fréttir

Knattspyrna | 16. apríl 2010

Haraldur verður fyrirliði

Haraldur Freyr Guðmundsson verður fyrirliði Keflavíkurliðsins í sumar.  Haraldur Freyr er fæddur 1981.  Hann byrjaði að spila með meistaraflokki Keflavíkur 1999 og hefur spilað alls 84 leiki í öllum keppnum og skorað 10 mörk.  Var valinn leikmaður ársins árið 2002.  Haraldur Freyr fór til Álasunds í Noregi 2005 og spilaði yfir 150 leiki fyrir þá og skoraði ellefu mörk.  Hann var sérstaklega verðlaunaður fyrir sína 150 leiki og var kosinn leikmaður ársins hjá þeim 2006.  Árið 2009 fór hann svo til Apollon Limassol á Kýpur og spilaði þar 18 leiki.  Kom svo til Keflavíkur í júlí 2009 og kláraði tímabilið með okkur.  Haraldur Freyr hefur spilað tvo A-landsleiki, gegn Suður Afríku og Ungverjalandi.  Með yngri landsliðum spilaði hann átta leiki með U-21 og fjóra leiki með U-19. Flott upptalning þetta.

Willum Þór þjálfari var í viðtali á keflavik.is í vetur og hafði þá þetta að segja þar:
”Ég verð þó að segja að ég bind miklar vonir við að við semjum við Harald Guðmundsson og að við fáum að njóta krafta hans á komandi árum.  Efni í leiðtoga sem eflir okkur í sumar og ekki síður í að miðla til af reynslu yngri leikmanna og hjálpa þannig til við mótun þeirra."

Við hér á  keflavik.is fengum leyfi hjá Willum Þór þjálfara að  tilkynna Haraldi Frey þetta með fyrirliðastöðuna fyrstum manna og er bara gaman að því. Í tilefni þess fengum við hann í stutt spjall.

Blessaður Halli. Við á keflavik.is fengum þann heiður að  tilkynna þér að þú verður fyrirliði liðsins í sumar. Hvernig líst þér á það?                                                                     
Mér líst bara mjög vel á það, mikill heiður að vera fyrirliði Keflavíkurliðsins og mun ég reyna að sinna fyrirliðastöðunni af minni bestu getu.

Hvernig gekk í æfingaferðinni sem þið fóruð til Spánar?                                                     
Hún gekk mjög vel, við æfðum þarna við góðar aðstæður, vellirnir fínir, veðrið gott, maturinn ágætur og hótelið flott og við erum bara sáttir við ferðina:)

Nú  eruð þið Futsal- og Reykjaneshallarmeistarar.  Hvað  með Lengjubikarinn?                   
Já við erum komnir i 8 liða úrslit þar og ég sé ekki ástæðu fyrir því að fara ekki alla leið í Lengjubikarnum.

Hver er eftirminnilegasti leikur þinn með Keflavík?                                                              
Það er Bikarúrslitaleikurinn 2004 (Keflavík-KA 3-0)

Hvaða væntingar gerir þú til sumarsins?                                                                                   
Ég vænti þess að við stöndum okkur vel og verðum i toppbaráttu!!!

Við  þökkum Haraldi Frey fyrirliða fyrir spjallið  og óskum honum og liðinu góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru.


Haraldur Freyr.


Í viðtali hjá Samma eftir bikarúrslitaleikinn 2004.


Heimkoman eftir bikarsigurinn.


Í leik með Álasund.


Með Apollon Limassol á Kýpur.


Kominn heim og skrifar undir samning við Keflavík í fyrra.


Haraldur tekur við sigurlaununum í Reykjaneshallarmótinu.


Fyrirliði gegn FC Denia á Spáni.


Halli í aksjón gegn Denia.


Með "gömlum" á Spáni.