Haukar - Keflavík á föstudag kl. 19:15
Eftir stutt EM-hlé fer Inkasso-deildin aftur af stað og okkar menn mæta Haukum á útivelli á föstudaginn. Leikurinn er í 7. umferð deildarinnar og verður á Ásvöllum í Hafnarfirði kl. 19:15. Fyrir þennan leik er Keflavík í 4. sæti deildarinnar með 10 stig og er enn eina taplausa liðið í deildinni. Haukar eru í 8. sæti með sjö stig. Dómari leiksins er Einar Ingi Jóhannsson, aðstoðardómarar eru Viatcheslav Titov og Ásbjörn Sigþór Snorrason og Einar Örn Daníelsson er svo eftirlitsmaður KSÍ. Við minnum á að leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Keflavík og Haukar léku síðast deildarleik árið 2010 þegar bæði lið voru í efstu deild. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli en hann fór reyndar fram á Njarðvíkurvelli en þá stóðu yfir endurbætur á heimavelli okkar. Haukar unnu seinni leikinn 2-0 en sá leikur fór fram á Hlíðarenda þar sem Haukar léku heimaleiki sína þetta sumar. Liðin mættust einnig í bikarkeppninni árið 2011 og þá vann Keflavík 3-1 sigur á Ásvöllum í 16 liða úrslitum keppninar.
Keflavík og Haukar hafa áður leikið sex leiki í B-deildinni árin 1981, 1991 og 2003. Keflavík hefur unnið alla leikina og markatalan er 24-2 í þessum leikjum. Liðin hafa einnig leikið fjóra leiki í efstu deild 1979 og 2010 og þar hefur hvort lið unnið einn leik og tveimur lokið með jafntefli. Markatalan þar er 5-4 fyrir Keflavík. Þessi lið hafa svo mæst þrisvar sinnum í bikarkeppninni, árin 1990, 1992 og 2011. Þar hefur Keflavík alltaf farið með sigur af hólmi og markatalan er 10-1, okkur í vil.