Haukasigur að Hlíðarenda
Keflvíkingar máttu sætta sig við tap gegn Haukum á Vodafone-vellinum þegar liðin mættust í 18. umferð Pepsi-deildarinnar á laugardaginn. Haukarnir unnu öruggan og sanngjarnan sigur 2-0 á arfaslökum Keflvíkingum. Mörk Hauka skoruðu þeir Magnús Björgvinsson og Guðjón Pétur Lýðsson í sitt hvorum hálfleiknum.
Það er alveg með ólíkindum hvað lið okkar var slakt og mörgum hulin ráðgáta af hverju liðið er að spila svona illa. Liðið er komið í 7. sæti deildarinnar.
Nú er komið landsleikjafrí og næsti leikur er 13. september gegn Fram. Willum Þór og strákarnir munu örugglega nota tímann vel til að finna lausn á þessari spilamennsku okkar.
-
Haukar unnu sinn fyrsta sigur á Keflavík í efstu deild en reyndar hafa liðin aðeins leikið fjóra leiki. Keflavík hefur unnið einn og tveimur lokið með jafntefli. Markatalan er 5-4 fyrir Keflavík.
-
Eftir 18 umferðir er Keflavík með 24 stig og markatöluna 19-23. Þegar liðið hafði leikið 18 leiki í fyrra voru stigin 25 og markatalan 26-31.
-
Keflavík hefur nú aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum liðsins í deildinni. Liðið hefur gert þrjú jafntefli en tapað fimm af þessum leikjum, gegn ÍBV, Breiðabliki, KR, Selfossi og Haukum.
Fótbolti.net
Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur var að vonum ósáttur með 2-0 tap liðsins gegn botnliði Hauka í Pepsi deild karla í kvöld.
,,Við erum náttúrulega aldrei sáttir með að tapa. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, þetta er bara hrikalegt andleysi sem grípur um sig og við töpum sanngjarnt 2-0. Þeir eru bara grimmari en við, vinna öll návígin og vinna seinni boltann og hlaupa meira en við. Það er í grunninn það sem þarf til að vinna í fótbolta," sagði Haraldur meðal annars við Fótbolta.net.
Fréttablaðið / Vísir
Þó svo Willum Þór vilji ekki viðurkenna það fullum fetum þá er eitthvað mikið að hjá Keflavíkurliðinu. Liðið var andlaust, kraftlaust og í raun áhugalaust í dag. Sjálfstraust leikmanna virtist ekki vera mikið og leikmönnum virðist hreinlega ekki liða vel.
Hinn sterki varnarleikur liðsins var ein rjúkandi rúst í dag og sóknarleikur liðsins fyrirsjáanlegur. Allar sóknir liðsins voru upp vinstri kantinn og skilaði nákvæmlega engu. Vinnuframlagið var þess utan afar takmarkað.
Leikmenn Keflavíkur þurfa að fara í rækilega naflaskoðun og líta á sig sjálfa. Það er ekki hægt að kenna öðrum um því vandamálið liggur hjá þeim. Nú reynir líka á Willum hvort hann hafi það sem til þarf að rífa þetta lið upp úr þeirri holu sem það er komið í.
Lasse 7, Guðjón 4, Alen 5, Bjarni 4, Haraldur 4, Einar Orri 2, Hólmar Örn 5, Magnús Sverrir 3 (Brynjar Örn 4), Magnús Þórir 6 (Jóhann Birnir 6), Guðmundur 4 (Haukur Ingi 6 ), Hörður 2.
Morgunblaðið / Mbl.is
Hjá liði Keflavíkur var hins vegar fátt um fína drætti, sé tekið mið af getu liðsins. Eftir að hafa leikið mjög vel gegn Stjörnunni í síðustu umferð virkuðu Keflvíkingar áhugalausir og hugmyndasnauðir, og í fimmta sinn í sumar skoruðu þeir ekki mark í leiknum og eru því áfram það lið í deildinni sem skorað hefur fæst mörk. Það hlýtur að vera keppikefli fyrir leikmennina að sú verði ekki niðurstaðan í lok leiktíðar.
M: Lasse, Jóhann Birnir.
Pepsi-deild karla, Vodafone-völlurinn, 28. ágúst 2010
Haukar 2 (Magnús Björgvinsson 24., Guðjón Pétur Lýðsson 59.)
Keflavík 0
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Brynjar Örn Guðmundsson 66.), Einar Orri Einarsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson, (Jóhann Birnir Guðmundsson 30.), Guðmundur Steinarsson (Haukur Ingi Guðnason 66.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Magnús Þór Magnússon, Andri Steinn Birgisson, Bojan Stefán Ljubicic.
Dómari: Kristinn Jakobsson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Andri Vigfússon.
Eftirlitsdómari: Þórður Ingi Guðjónsson.
Áhorfendur: 663.
Haukar höfðu yfirburði á flestum sviðum að Hlíðarenda.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)