"Haukur er fenginn til að skora mörk"
Eins og fram hefur komið er Haukur Ingi Guðnason kominn heim í heiðardalinn og leikur með Keflavíkur næstu tvö árin. Við spurðum Kristján þjálfara hvað hann ætlar eiginlega að gera við drenginn og svo fengum við hugljúfan pistil frá Jóhanni Birni sem fagnar að sjálfsögðu sínum gamla félaga og fóstbróður.
Jæja Kristján, er það ekki að bera í bakkafullan lækinn að bæta við framherja í leikmannahópinn?
"Jú, við fyrstu sýn má kannski segja það en á það ber að horfa að við erum líklega að missa þrjá leikjahæstu framherjana úr leikmannahópnum frá því í fyrra. Það er því mikilvægt að bæta við í það minnsta einum leikreyndum framherja sem getur miðlað af reynslu sinni til hinna ungu og efnilegu framherja sem við erum með í leikmannahópnum í dag og berja harkalega á dyrnar að liðinu. Haukur er auðvitað fenginn til liðsins til þess að spila og hjálpa okkur að skora mörk."
Lýstu Hauki Inga sem leikmanni.
"Haukur er leiftursnöggur framherji sem ógnar varnarmönnum stöðugt með hraða sínum og leikni, ekki síst í svæðinu á bak við vörnina. Draumur Hauks er reyndar að spila bakvörð en það er eitthvað sem hann hefði átt að gera upp við sig fyrir langa löngu".
Nú sjáum við töluvert rætt um að Haukur Ingi og Jóhann Birnir séu að láta gamlan draum rætast og spila sín seinustu knattspyrnuár saman, helst í sömu treyju, með Keflavík. Verður það þannig næsta sumar að þeir spila saman í framlínunni, annaðhvort báðir eða hvorugur, gefandi knöttinn hvor á annan?
"Nei, nei, það er ekkert slíkt í gangi. ég tel að þetta muni einungis örva þá til þess að spila vel fyrir Keflavík hvort sem þeir sleppa í liðið báðir eða annar þeirra. Ástandið verður ekki þannig að það líti út á æfingum sem svo að verið sé að fara með þá fóstbræður í leikskóla þar sem þeir ætla sér að leika saman í sandkassanum, sama hvað..."
Þetta eru frábærar fréttir fyrir félagið að fá Laukinn aftur eins og Gunni Odds kaus að kalla hann. Hann á eftir að styrkja liðið gríðarlega bæði innan og utan vallar. Betri fyrirmynd er ekki hægt að fá fyrir yngri leikmenn liðsins og svo er hann líka frábær leikmaður sem á tvímælalaust eftir styrkja liðið. Það verður allavega mikill léttir fyrir þá varnarmenn sem ennþá eru eftir hjá okkur að þurfa ekki að kljást við Hauk Inga heldur hafa hann í rétta búningnum! Svo er hann náttúrulega Keflvíkingur í húð og hár og á að mínu mati hvergi annars staðar að vera fótboltalega en í Keflavík. Það verður líka góð upplyfting fyrir æfingaferðina og útileikina í evrópukeppninni að hafa töframann með í för til að stytta okkur stundir og eftir síðasta tímabil er ekki verra að vera með sálfræðing í liðinu :)
Kveðja,
Jóhann B.
Kristján og Haukur Ingi við undirritunina.
(Mynd: Jón Örvar)