Haukur Ingi til Keflavíkur
Haukur Ingi Guðnason er genginn til liðs við Keflavík frá Fylki og hefur gert tveggja ára samning við félagið. Það þarf varla að kynna Hauk fyrir Keflvíkingum enda er drengurinn innfæddur og lék með okkar liði við góðan orðstír á sínum tíma. Haukur Ingi lék með Keflavík í yngri flokkunum og lék fyrst með meistaraflokki árið 1996. Hann varð bikarmeistari með Keflavík árið 1997 en fór síðan til Liverpool í Englandi. Haukur fór síðan til KR, lék aftur með okkur 2001-2002 en gekk þá til liðs við Fylki. Hann hefur leikið 60 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og skorað í þeim 19 mörk auk 12 bikarleikja (2 mörk) og þriggja leikja í Evrópukeppni. Það er mjög ánægjulegt að fá Hauk Inga aftur til Keflavíkur og við bjóðum hann velkominn í hópinn.
Myndir: Jón Örvar
Haukur Ingi kominn aftur með Keflavíkurtreyjuna.
Haukur og Þorsteinn formaður ganga frá samningnum.