Fréttir

Knattspyrna | 13. júlí 2009

Haukur kominn í topp 10 (eða 11)

Eins og flestir ættu að vita skoraði Haukur Ingi Guðnason bæði mörk Keflavíkur í 2-2 jafnteflinu gegn ÍBV í Pepsi-deildinni.  Með þessum tveimur mörkum er Haukur Ingi kominn með 24 mörk fyrir Keflavík í efstu deild og er kominn á listann yfir tíu markahæstu leikmenn félagsins frá upphafi.  Hann er nú í 9.-11. sæti listans ásamt Jóni Jóhannssyni og Einari Ásbirni Ólafssyni.  Ekki er heldur langt í næstu menn þar fyrir ofan en Ólafur Júlíusson er með 26 mörk og Friðrik Ragnarsson með 27.  Það eru fleiri en Haukur Ingi sem sækja að þessum köppum en Hörður Sveinsson er kominn með 23 mörk í efstu deild og það má því reikna með að þeir félagar færist upp listann í sumar (nema aðstoðarþjálfarinn stoppi þá af!).  Af leikmönnum liðsins í dag er Jóhann B. Guðmundsson næstur með 16 mörk í efstu deild og þeir Magnús Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson og Símun Samuelsen hafa skorað 15 stykki hver.  Og nú styttist í að Guðmundur Steinarsson bætist í leikmannahóp Keflavíkur en hann er í 2. sæti listans með 64 mörk.

Haukur Ingi lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 1995 og hann hefur skorað þessi 24 mörk í 74 leikjum.  Fyrsta mark hans í efstu deild kom í öðrum leik hans, þann 17. september árið 1995 í 3-2 sigurleik gegn Leiftri á Keflavíkurvelli.  Haukur lék með Keflavík 1995-1997, aftur árin 2001-2002 og hann gekk svo aftur til liðs við félagið fyrir þetta keppnistímabil.  Hann hefur einnig leikið með Liverpool, KR og Fylki og leikið 8 landsleiki fyrir Ísland. 


Haukur gekk að nýju til liðs við Keflavík í vetur.