Heiðursmerki KSÍ
Í gær veitti KSÍ knattspyrnufólki ársins viðurkenningu en við það tækifæri voru einnig veitt heiðursmerki sambandsins. Að þessu sinni fengu 24 gullmerki KSÍ en gullmerki er aðeins veitt þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingarmikil störf. Meðal þeirra sem fengu gullmerkið í ár voru Rúnar Arnarson, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur, og Guðni Kjartansson, fyrrum fyrirliði og þjálfari Keflavíkur og íslenska landsliðsins. Meðal þeirra 53 sem fengu silfurmerkið voru nokkrir einstaklingar sem starfa eða hafa starfað fyrir knattspyrnuna í Keflavík. Þetta eru þeir Kári Gunnlaugsson, Gísli Jóhannsson, Ásbjörn Jónsson, Ragnar Örn Pétursson og Sigurður Friðjónsson. Silfurmerki KSÍ fá þeir sem unnið hafa vel og dyggilega að eflingu knattspyrnuíþróttarinnar í áratug eða lengur. Við óskum þessum heiðursmönnum og öðrum sem fengu heiðursmerki til hamingju.