Heimaleikir framundan
Svo skemmtilega vill til að um þessar mundir stendur yfir mikil heimaleikjahrina hjá meistaraflokkum Keflavíkur. Frá 12. júlí til 1. ágúst leika karla- og kvennaliðin sjö leiki í röð á Nettó-vellinum.
Leikjaniðurröðunin í 1. deild kvenna kom þannig út að fyrr í sumar léku stelpurnar okkar fjóra útileiki í röð og leika nú fimm leiki í röð á heimavelli. Sá fyrsti var gegn liði HK/Víkings í síðustu viku en honum lauk með 1-1 jafntefli. Næsti leikur er gegn BÍ/Bolungarvík á föstudag kl. 20:00 og síðan koma heimaleikir gegn Völsungi, Álftanesi og Fram.
Karlaliðið kláraði fyrri umferð Pepsi-deildarinnar með heimaleik gegn KR og gerði 1-1 jafntefli eins og stelpurnar. Liðið byrjaði deildina í vor á tveimur útileikjum og byrjar þess vegna seinni hluta deildarinnar með tveimur heimaleikjum. Sá fyrri verður gegn Fylki næsta mánudag kl. 19:15 og síðan kemur Suðurnesjaslagur gegn Grindavík mánudaginn 30. júlí.
Við hvetjum stuðningsmenn okkar til að nýta þetta einstaka tækifæri til að mæta á völlinn og styðja liðin okkar. Undanfarið hefur okkur ekki gengið sem skyldi á Nettó-vellinum og ekki tekist að gera hann að þeirra gryfju sem við viljum að heimavöllurinn okkar sé. Frá því að völlurinn var vígður að nýju eftir endurbætur í júlí 2010 höfum við fengið 28 stig af 69 mögulegum í þeim 23 deildarleikjum sem við höfum leikið á heimavelli. Það er um 40% árangur sem er undir væntingum en árið 2009 fengum við 25 af 33 stigum á heimavelli sem gerir 75% árangur. Nú þurfum við að taka höndum saman og gera völlinn okkar að sterkum heimavelli.