Heimaleikur gegn FH í bikarnum
Keflavík og FH mætast í 8 liða úrslitum VISA-bikarsins en dregið var í hádeginu í dag. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík 30. júlí. Þetta er þriðji heimaleikur okkar í bikarnum í ár og fimmti heimaleikurinn af síðustu sex bikarleikjum Keflavíkur. Það er ágætis tilbreyting en áður hafði Keflavíkurliðið leikið 17 útileiki í röð í bikarkeppninni.
Keflavík og FH mættust einmitt í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins síðasta sumar og þá vann Keflavík 3-1 á Sparisjóðsvellinum. Guðmundur Steinarsson, Guðjón Árni Antoníusson og Patrik Redo skoruðu fyrir Keflavík í þeim leik en Matthías Vilhjálmsson skoraði mark FH. Liðin hafa mæst átta sinnum í bikarkeppninni í gegnum árin. Keflavík hefur unnið fjóra leiki og FH þrjá en einum leik lauk með jafntefli. Markatalan er 10-6 fyrir Keflavík í bikarleikjum gegn FH.
8 liða úrslit VISA-bikarsins, 30. júlí:
HK - Breiðablik
Valur - KR
Keflavík - FH
Fram - Fylkir