Fréttir

Knattspyrna | 21. maí 2010

Heimaleikur gegn KS/Leiftri í VISA-bikarnum

Í dag var dregið í 32 liða úrslit VISA-bikars karla í höfuðstöðvum KSÍ.  Okkar menn mæta liði KS/Leifturs á heimavelli og fer leikurinn fram miðvikudaginn 2. júní kl. 19:15 á Njarðtaksvellinum.  Lið KS/Leifturs er sameiginlegt lið Siglfirðinga og Ólafsfirðinga og leikur nú í 2. deild. 

Keflavík hefur leikið þrjá bikarleiki gegn Leiftri, allir hafa þeir unnist og í öll skiptin komst Keflavíkurliðið í úrslitaleik keppninnar.  Árið 1988 skoraði Grétar Einarsson sigurmarkið gegn Leiftri á Ólafsfirði í undanúrslitum en Keflavík tapaði svo gegn Val í úrslitum.  Næst léku liðin í 8 liða úrslitum árið 1993 og þá vann Keflavík 4-2 á heimavelli.  Marco Tanasic, Kjartan Einarsson, Óli Þór Magnússon og Gunnar Oddsson skoruðu fyrir Keflavík sem tapaði úrslitaleik bikarsins gegn ÍA þetta ár.  Árið 1997 mættust Keflavík og Leiftur aftur í undanúrslitum, þá vannst sigur á heimavelli og skoraði Þórarinn Kristjánsson sigurmarkið.  Það þarf varla að taka fram að Keflavík vann svo lið ÍBV í endurteknum úrslitaleik og varð bikarmeistari.