Heimasíða Keflavíkur vekur athygli
Það hafa margir haft á orði hvað heimasíða Keflavíkur hafi fjallað vel og myndrænt um leiki liðsins í sumar. Hjónin Eygló Eyjólfsdóttir og Jón Örvar Arason eiga allan heiðurinn af myndbirtingum með greinunum og skrifa einnig mest af því sjálf. Allt kallar þetta á mikla vinnu hjá þeim og fórnfýsi fyrir Keflavík sem þau hjón eiga nóg af þegar félagið er annars vegar. Launin eru afraksturinn af skemmtilegustu heimasíðu í deildinni, þar sem fjallað er um liðið á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Ekki má gleyma þætti Guðmanns Kristþórssonar varðandi heimasíðuna en hann hefur verið óþrjótandi við að setja inn efni, myndir og ýmsar gagnlegar upplýsingar. Það eru fleiri sem leggja hönd á plóginn þegar kemur að félagsstarfinu í kringum liðið í sumar og vil ég nefna nokkur dæmi og gleymi vonandi engum. K-klúbburinn, Sportmenn og Fjölskylduklúbbur Keflavíkur hafa öll tekið virkan þátt í umgjörð liðsins sem er ómetanlegt ásamt Pumasveitinni sem setur mikið trukk í leikina. Það er gott þegar hver og einn getur fundið hlutverk við sitt hæfi og hver starfar á sinn hátt. A ðalmálið er að allir stuðningsmenn Keflavíkur skipta máli. Ef það er ekki fyrir stuðningsmennina liðið, fyrir hvern þá? Knattspyrnudeildin í Keflavík hefur ákveðið í samráði við stuðningsaðila að bjóða öllum stuðningsmönnum á Evrópuleik liðsins gegn Etzella fimmtudaginn 28. júlí. Það er því upplagt fyrir þá sem taka Verslunarmannahelgina snemma að mæta á leikinn á fimmtudagskvödinu kl. 19.15 og demba sér síðan í áframhaldandi gleði eftir að Keflavík hefur tryggt sig í aðra umferð í UEFA-CUP 2005. ási