Heimasigur gegn Frömurum
Keflavík vann ágætan 2-1 sigur á Fram á Keflavíkurvelli í gærkvöldi. Leikurinn var fjörugur og bæði lið sköpuðu sér ágæt færi, ekki síður Framarar sem fengu nokkur ágæt færi til að jafna leikinn en tókst ekki að komast framhjá Ómari. Eftir góða byrjun gestanna kom Þórarinn okkar mönnum yfir á 14. mínútu með góðu skallamarki. Þórarinn var skyndilega einn og óvaldaður í miðjum vítateignum og skallaði frábæra fyrirgjöf Guðmundar Steinars laglega í netið. Fram jafnaði eftir rúmlega hálftíma leik þegar Hjálmar Þórarinsson skoraði með góðu skoti frá vítateigslínu eftir snarpa skyndisókn. Sigurmarkið kom á 66. mínútu þegar Baldur skoraði af stuttu færi og enn eftir undirbúning Guðmundar. Hann sendi góða sendingu frá vinstri á Baldur sem skaust framhjá Frömurunum og sendi boltann með föstu skoti upp í þaknetið. Eftir þetta fengu bæði lið færi til að skora fleiri mörk en tókst ekki. Eftir leikinn er Keflavík í 3.-4. sæti Landsbankadeildarinnar með 11 stig en Fram er í næstneðsta sæti með 2 stig. Næsti leikur okkar er útileikur gegn Víkingum miðvikudaginn 20. júní.
Morgunblaðið
Keflvíkingar náðu ekki upp einbeitingunni, sem skilað hefur þeim undirtökum í leikjum sumarsins og þurftu fyrir vikið að verjast meira. Þeir reyndu að toga mótherjana framar á völlinn til að opna vörn þeirra en það gekk lítið og skapaði eiginlega meiri vandræði en færi. Líklega fundu leikmenn það, svo þegar leið á seinni hálfleik virtust leikmenn mjög sáttir við eins marks sigur. Það máttu þeir því þrjú stig fyrir sæmilegan leik er ágæt uppskera. Vörnin stóð flestöll fyrir sínu og á miðjunni var að venju Jónas Guðni sterkur en minna sást af Símun Samuelssen.
M: Ómar, Guðjón, Kenneth, Branko, Marco, Jónas, Guðmundur.
Fréttablaðið
Leiknum lauk með 2-1 sigri Keflavíkinga en Framarar hefðu hæglega getað tekið eitt stig. Nokkur deyfð var yfir leikmönnum beggja liða sem virtust ekki vera með hugann við leikinn. Jónas Guðni Sævarsson var besti maður vallarins og að hans mati var sigurinn sanngjarn. „Mér fannst þetta sanngjarnt. Við vorum að spila fínan bolta þrátt fyrir að vera í erfiðleikum til að byrja með. Svo náðum við tökum á spilinu og vorum betri þrátt fyrir að þeir hafi fengið nokkur færi. Það fengum við líka en það bar á kæruleysi og við hefðum átt að skora meira. Ég er mjög sáttur með leikinn,“ sagði Jónas, sem kvaðst vera sáttur við spilamennsku Keflvíkinga fyrstu sex umferðirnar en ekki stigafjöldann.
Ómar Jóhannsson 6, Guðjón Antoníusson 6, Hallgrímur Jónasson 4 (Stefán Örn Arnarson -), Kenneth Gustavsson 5, Branko Milicevic 5, Marco Kotilainen 6 (Guðmundur Mete 6), Jónas Guðni Sævarsson 7, Baldur Sigurðsson 7, Símun Samuelsen 4, (Ingvi Rafn Guðmundsson -), Þórarinn Kristjánsson 7, Guðmundur Steinarsson 7 (Magnús Þorsteinsson 4).
Maður leiksins: Jónas Guðni Sævarsson.
Víkurfréttir
...leit fyrsta markið dagsins ljós þegar Þórarinn Kristjánsson, sem hefur verið á skotskónum undanfarið, skallaði framhjá Hannesi Halldórssyni í marki Framara. Kæruleysi gestanna skóp það færi því Guðjón Árni Antoníusson fékk lausan bolta aftarlega á kantinum. Hann gaf á Guðmund Steinarsson, sem fékk nógan tíma til að athafna sig fyrir utan teig og sendi góðan bolta inn á markteig þar sem Þórarinn átti ekki í erfiðleikum með að klára dæmið.
Á 55. mínútu gerðu varnarmenn Fram sig enn seka um værukærð þegar Guðmundur Steinarsson var enn á ferð á kantinum, sendi stutta fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Baldur Sigurðsson kom skeiðandi að gömlum sið, stakk boltanum fram hjá Hannesi og þrumaði boltanum upp í þaknetið.
Fótbolti.net
Heilt yfir voru Keflvíkingar alltaf skrefi á undan án þess þó að spila góðan leik. Það er góðs viti fyrir Kristján og hans menn að ná 3 stigum eftir spilamennsku sem þessa en að sama skapi áhyggjuefni fyrir Ólaf Þórðarson og lærisveina hans. Það var andleysi yfir leik Framara og þeir náðu aldrei að ógna neitt að viti.
Erfitt er að telja upp leikmenn úr röðum Framara sem stóðu upp úr en Jónas Grani átti fína spretti inn á milli sem og Theadór Óskarsson en þeir týndust alltof lengi. Ómar Jóhannsson stóð vaktina vel en það er erfitt að vera markmaður í svona leik, rólegur leikur og einbeitingin gæti átt til með dofna en hann hélt henni. Guðmundur Steinarsson átti fína spretti og lagði upp bæði mörk Keflvíkinga og annað með stórglæsilegri sendingu. Baldur og Jónas eru mjög traustir á miðjunni og klikka sjaldan.
Framarar verða taka sig verulega á ef þeir ætla ekki að fara beina leið niður aftur en Keflvíkingar sem áttu ekkert sérstakan leik fengu það sem bæði liðin sóttust eftir og það eru 3 stig.
Keflavíkurvöllur, Landsbankadeildin, 14. júní 2007
Keflavík 2 (Þórarinn Kristjánsson 14., Baldur Sigurðsson 55.)
Fram 1 (Hjálmar Þórarinsson 33.)
Keflavík (4-3-3): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson (Stefán Örn Arnarson 90.), Branko Milicevic - Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Marco Kotilainen (Guðmundur Mete 58.), Þórarinn Kristjánsson, Guðmundur Steinarsson (Magnús Þorsteinsson 70.)
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Þorsteinn Georgsson, Magnús Matthíasson, Einar Orri Einarsson.
Gult spjald: Branko Milicevic (53.)
Dómari: Sævar Jónsson.
Aðstoðardómarar: Gunnar Gylfason og Jóhann Gunnar Guðmundsson .
Eftirlitsmaður: Eyjólfur Ólafsson.
Áhorfendur: 1060.
Vel á veðri. Ómar, Kenneth og Baldur áttu allir góðan leik.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)