Fréttir

Knattspyrna | 11. apríl 2005

Helgi með 7 mörk í tveimur leikjum

Piltarnir í 3. flokki karla áttu annasama helgi í boltanum.  Keflavík tók á móti FH í Faxaflóamótinu á föstudaginn í Reykjaneshöllinni, í keppni A-liða.  Leikurinn var mjög sveiflukenndur þar sem Keflvíkingar byrjuðu mun betur og leiddu 3-1 í hálfleik, með tveimur mörkum frá Magnúsi Þóri Matthíassyni og einu frá Fannari Þór Sævarssyni.  FH-piltar komu mun ákveðnari til leiks eftir hlé og komust yfir 3-4!  Þegar um 15 mínútur voru til leiksloka kom Helgi Eggertsson inn á og breytti algjörlega gangi leiksins, pilturinn setti þrjú mörk á síðasta stundarfjórðungnum og tryggði Keflvíkingum sigurinn, 6-4.

Á sunnudag öttu piltarnir kappi við Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði. Enn og aftur var Helgi Eggertsson á skotskónum og gerði 4 mörk í 5-4 sigri Keflavíkur, Natan Freyr Guðmundsson setti eitt mark.  Leikurinn var mjög viðburðaríkur og fór rauða spjaldið t.a.m. þrisvar sinnum á loft hjá dómaranum, þar af 2 til handa Keflvíkingum.

B-liðið lék einnig gegn Haukum en þar endaði leikurinn 2-2, eftir að Haukar höfðu leitt 2-0 í hálfleik.  Mörk Keflavíkur gerðu Fannar Þór Sævarsson og Gylfi Már Þórðarson.


Helgi Eggertsson kampakátur að leik loknum gegn Haukum, að Ásvöllum. 
Pilturinn sannarlega verið á skotskónum að undanförnu, 7 mörk í tveimur leikjum!