Fréttir

Knattspyrna | 1. september 2011

Herslumuninn vantaði hjá stelpunum

Keflavík féll úr leik í undanúrslitum 1. deildar kvenna eftir 1-6 tap gegn Selfossi í seinni leik liðanna.  Keflavík vann fyrri leikinn 3-2 en Selfyssingar unnu samanlagt og tryggðu sér sæti í úrvalsdeild að ári og er sjálfsagt að óska Selfossstúlkum til hamingju með það.  Þetta er annað árið í röð sem stelpurnar falla úr leik í undanúrslitum deildarinnar en þær mega vel við una eftir sumarið.  Liðið tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með miklu harðfylgi og stóð sig með prýði gegn sterkum andstæðingum. 

Keflavíkurliðið er að miklu leyti skipað ungum leikmönnum sem meira reyndi á eftir því sem leið á sumarið og nokkrir af reyndari leikmönnum liðsins fóru utan til náms.  Þetta er reyndar raunin hjá mörgum liðanna í 1. deildinni sem tefla gjarnan fram ungum leikmönnum.  Reyndar þurftu okkar stelpur að yfirstíga ýmsar hindranir en Steinar Ingimundarson þjálfari varð að hætta störfum um mitt sumar.  Björg Ásta Þórðardóttir aðstoðarþjálfari tók þá við en varð einnig að hætta vegna veikinda og hljóp Sigurður Guðnason þá í skarðið og þjálfaði liðið út tímabilið.  Stelpurnar ættu að vera reynslunni ríkari eftir sumarið en Keflavík er einnig kominn með stóran hóp leikmanna í 2. flokki sem munu væntanlega fljótlega banka á dyrnar hjá meistaraflokki.  Þeir sem starfa með knattspyrnukonunum okkar eru ánægðir með framfarirnar og gera sér góðar vonir um að það styttist í að okkar lið tryggi sér sæti í efstu deild kvenna.