Hilmar Geir hættir með Keflavík
Hilmar Geir Eiðsson hefur sagt skilið við Keflvík en hann hefur ákveðið að leita fyrir sér á höfuðborgarsvæðinu fyrir næsta tímabil. Hilmar hefur leikið með okkur síðustu tvö ár en hann kom frá Haukum árið 2011. Hann hefur verið einn traustasti leikmaður liðsins þennan tíma og hefur leikið 40 deildarleiki og skorað sex mörk auk þriggja bikarleikja.
Knattspyrnudeild þakkar Hilmar kærlega fyrir hans framlag til Keflavíkurliðsins og ánægjulegt samstarf og óskar honum góðs gengis á nýjum slóðum.
Hér er svo kveðja sem Hilmar Geir bað fyrir.
Ég vill þakka stuðningsmönnum, þjálfurum og því frábæra fólki sem starfar í kringum liðið fyrir tvö skemmtileg og jafnframt lærdómsrík ár. Það hefur verið ómetanlegt að taka þátt í uppbyggingunni á Reykjanesinu sem eini fulltrúi þeirra sem telst á „besta“ aldri. Auk þess vill ég sérstaklega þakka leikmönnunum liðsins sem hafa margir orðið góðir félagar og vinir.
Af persónulegum ástæðum hef ég ákveðið að endurnýja ekki samning minn við Keflavík og er stefnan að leika á höfuðborgarsvæðinu næsta tímabil. Framtíðin er björt hjá liðinu og mega stuðningsmenn og ég þar á meðal eiga von á spennandi tímum framundan.
Kveðja,
Hilmar