Fréttir

HK - Keflavík á föstudag kl. 19:15
Knattspyrna | 4. maí 2016

HK - Keflavík á föstudag kl. 19:15

Föstudaginn 6. maí er komið að fyrsta deildarleik sumarsins en þá mætum við HK í 1. umferð Inkasso-deildarinnar.  Leikurinn verður í Kórnum í Kópavogi og hefst kl. 19:15.  Dómari leiksins verður Guðmundur Ársæll Guðmundsson og aðstoðardómarar þeir Bjarki Óskarsson og Sævar Sigurðsson.  Varadómari verður Einar Ingi Jóhannsson og eftirlitsmaður KSÍ er Gylfi Þór Orrason.  Það er rétt að taka fram að leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það er kannski við hæfi að fyrsti leikur sumarsins sé gegn HK.  Þorvaldur þjálfari tók við okkar liði eftir að hafa þjálfað Kópavogsliðið undanfarin tvö ár.  Í kjölfarið fengum við þrjá fyrrverandi leikmenn HK í okkar herbúðir en það eru þeir Axel Kári Vignisson, Beitir Ólafsson og Guðmundur Magnússon.  Það verður því væntanlega meira í húfi en stigin þrjú þegar þessi lið mætast.

Keflavík og HK léku síðast í sömu deild árið 2008 þegar bæði lið léku í efstu deild.  Keflavík vann báða leiki liðanna það sumarið, 2-1 á útivelli og 3-2 á heimavelli okkar þar sem Hörður Sveinsson gerði sigurmarkið í blálokin.

Þessi félög hafa leikið fjóra leiki í efstu deild og þar höfum við unnið þrjá leiki en HK einn.  Markatalan er 9-5 fyrir Keflavík.  Liðin léku í B-deildinni árið 2003 og þar vann Keflavík báða leikina, 5-1 og 7-0.  Liðin hafa tvisvar mæst í bikarkeppninni og þar er hvort lið með einn 1-0 sigur.  Við unnum einmitt HK í undanúrslitum bikarsins á Laugardalsvelli árið 2004 en Keflavík varð bikarmeistari það ár.