Fréttir

Knattspyrna | 18. maí 2008

HK - Keflavík á mánudag kl. 19:15

Mánudaginn 19. maí mætast HK og Keflavík í 3. umferð Landsbankadeildarinnar.  Leikurinn fer fram á Kópvogsvelli og hefst kl. 19:15.  Okkar menn eru að sjálfsögðu staðráðnir í að fylgja eftir góðri byrjun eftir tvo góða sigra gegn Val og Fylki.  Nú er komið að fyrsta útileiknum og ljóst að það verður ekki auðvelt að sækja stig í Kópavoginn.  HK-menn hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og enn ekki skorað mark í deildinni og koma því væntanlega ákveðnir til leiks á heimavelli sínum.  Dómari leiksins verður Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Smári Stefánsson en eftirlitsmaður KSÍ er Björn Guðbjörnsson.

Keflavík og HK hafa ekki leikið marga leiki í opinberum keppnum enda stutt síðan Kópavogsliðið fór að láta verulega til sín taka í efri deildunum.  HK lék í fyrsta skipti í efstu deild síðasta sumar og þá léku liðin tvö leiki eins og lög gera ráð fyrir.  Keflavík vann fyrri leikinn á Keflavíkurvelli 3-0 þar sem Þórarinn Kristjánsson, Símun Samuelsen og Guðmundur Steinarsson skoruðu mörkin.  Í seinni umferð Landsbankadeildarinnar var fátt um fína drætti hjá okkar mönnum og þeir töpuðu 1-2 á Kópvogsvelli þar sem Guðmundur Steinarsson skoraði.

Liðin mættust í næstefstu deild árið 2003 og þá vann Keflavík báða leikina.  Leikurinn á Kópvaogsvelli fór 5-1; Magnús Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Þórarinn Kristjánsson, Hörður Sveinsson og Scott Ramsay gerðu mörkin.  Lokatölurnar í seinni leiknum í Keflavík urðu 7-0.  Þar skoraði Þórarinn Kristjánsson tvö mörk og Hólmar Örn Rúnarsson, Ólafur Ívar Jónsson, Magnús Þorsteinsson, Kristján Jóhannsson og Hörður Sveinsson eitt mark hver.

Liðin hafa mæst tvisvar sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ, árin 2004 og 2005.  Fyrra árið léku liðin í undanúrslitum keppninnar á Laugardalsvelli og lauk leiknum með 1-0 sigri Keflavíkur en HK-menn skoruðu reyndar sjálfsmark.  Keflavík vann svo bikarinn með 3-0 sigri á KA í úrslitaleiknum.  Árið eftir mættust liðin í 16 liða úrslitum og þá var komið að HK að vinna 1-0.

Þess má geta að tveir leikmenn HK hafa leikið fyrir Keflavík.  Gunnleifur Gunnleifsson stóð í markinu hjá okkur árin 2000 og 2001.  Ásgrímur Albertsson hafði stutta viðdvöl í Keflavík árið 2005 en skipti aftur yfir í HK um mitt sumar.  Einnig hefur Jón Þorgrímur Stefánsson leikið fyrir bæði félögin.