Fréttir

Knattspyrna | 16. ágúst 2007

HK - Keflavík í kvöld kl. 19:15

Nú er komið að 13. umferð Landsbankadeildarinnar og í kvöld heimsækjum við HK í Kópavogsvelli.  Leikurinn fer að sjálfsögðu fram á Kópavogsvelli og hefst kl. 19:15.  Eftir slakt gengi undanfarið er mikilvægt fyrir Keflavíkurliðið að ná góðum úrslitum en okkur hefur reyndar ekki gengið vel á móti Kópavogsbúum undanfarið.  Fyrir leikinn er Keflavík í 4.-5. sæti deildarinnar með 18 stig en HK er í 8. sæti með 11 stig og þarf á stigum að halda til að dragast ekki í fallbaráttuna.  Dómari leiksins verður enginn annar er Kristinn Jakobsson, aðstoðardómarar þeir Áskell Þór Gíslason og Ólafur Ingvar Guðfinnsson og eftirlitsmaður KSÍ er Guðmundur Sigurðsson.

Keflavík og HK hafa ekki leikið marga leiki í gegnum árin en fyrr í sumar mættust liðin í fyrsta skipti í efstu deild.  Keflavík vann þá 3-0 á Keflavíkurvelli með mörkum frá Þórarni Kristjánssyni, Símun Samuelsen og Guðmundi Steinarssyni.  Liðin léku í B-deild árið 2003 og þá vann Keflavík báða leiki liðanna.  Fyrri leikurinn fór fram í Kópavoginum og fór 5-1; Magnús Þorsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Þórarinn Kristjánsson, Hörður Sveinsson og Scott Ramsay skoruðu mörkin.  Seinni leiknum á Keflavíkurvelli lauk með 7-0 sigri Keflavíkur þar sem Þórarinn Kristjánsson skoraði tvö mörk og þeir Hólmar Örn Rúnarsson, Ólafur Ívar Jónsson, Magnús Þorsteinsson, Kristján Jóhannsson og Hörður Sveinsson eitt hver.  Liðin hafa tvisvar mæst í bikarkeppninni, árin 2004 og 2005.  Þegar Keflavík varð bikarmeistari árið 2004 sigruðum við HK í undanúrslitum á Laugardalsvelli, eina mark leiksins var sjálfsmark.  Árið eftir mættust liðin í 16 liða úrslitum og þá vann HK 1-0.