Hólmar í 100 leiki
Leikurinn gegn Víkingi í vikunni var tímamótaleikur fyrir Hólmar Örn Rúnarsson en hann lék sinn 100. deildarleik fyrir Keflavík. Hólmar, sem er 24 ára gamall, lék sinn fyrsta deildarleik gegn ÍA 10. september árið 2000. Síðan hefur strákurinn leikið 82 leiki í efstu deild (10 mörk) og 18 leiki í B-deild (6 mörk). Auk deildarleikjanna hefur Hólmar leikið 16 bikarleiki (6 mörk) og 8 Evrópuleiki (1 mark). Aðeins tveir leikmanna Keflavíkurliðsins í dag hafa leikið fleiri leiki fyrir liðið: Þórarinn Kristjánsson er kominn í 130 deildarleiki og fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson hefur leikið 126 deildarleiki fyrir Keflavík.
Þess má geta að Hólmar Örn missti síðast af deildarleik hjá Keflavík þann 15. september 2002 þegar hann var varamaður en kom ekki inn á gegn KA á Keflavíkurvelli. Síðan hefur hann tekið þátt í 66 deildarleikjum í röð. Séu leikir í bikarkeppni og Evrópukeppni teknir með hefur Hólmar leikið í síðustu 84 leikjum Keflavíkur í opinberum keppnum. Hann er reyndar ekki einn um að vera lítið fyrir að missa af leikjum því Jónas Guðni Sævarsson er aðeins einum leik á eftir en hann hefur nú leikið síðustu 65 deildarleiki og 83 leiki alls. Svo er bara að sjá hvor heldur lengur út þó við vonum að strákarnir fari ekki taka mjög hart hvor á öðrum á æfingum...
Hólmar Örn fagnar marki sínu gegn Lilleström á dögunum og það er Jónas sem fagnar með honum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)