Fréttir

Knattspyrna | 20. ágúst 2008

Hólmar með hundrað og meira af markametum

Hólmar Örn Rúnarsson lék sinn 100. leik fyrir Keflavík í efstu deild þegar liðið vann Þrótt á dögunum.  Hólmar lék sinn fyrsta leik fyrir félagið gegn ÍA í september árið 2000.  Hann hefur skorað 13 mörk í leikjunum 100 og hefur auk þess leikið 18 leiki í næstefstu deild (6 mörk), 20 bikarleiki (6 mörk) og átta leiki í Evrópukeppnum (1 mark).  Hólmar hefur verið í fantaformi í sumar og er í landsliðshópi Íslands sem mætir Aserbaídsjan í kvöld.

Hólmar Örn á landsliðsæfingu. (Mynd: fótbolti.net)

Með mörkunum fimm gegn Þrótti settu strákarnir nýtt félagsmet en liðið er búið að skora 41 mark í sumar en áður hafði Keflavík mest skorað 36 mörk á einu tímabili í efstu deild.  Markið sem Magnús gerði í leiknum var 9. markið sem varamenn Keflavíkur hafa gert í deildinni í sumar.  Það er líka athyglisvert að það voru fimm leikmenn sem settu þessi fimm mörk og er það aðeins í annað skiptið í sögunni sem fimm leikmenn komast á blað hjá Keflavík í einum og sama leiknum í efstu deild.  Fyrra skiptið var í 1. umferð Íslandsmótsins árið 1964 í 6-5 sigurleik gegn Fram.  Þar skoraði Jón Jóhannsson tvö mörk og þeir Jón Ólafur Jónsson, Einar Magnússon, Hólmbert Friðjónsson og Rúnar Júlíusson eitt hver.  Þetta ár varð Keflavík einmitt Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

Brynjar Örn skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík í leiknum gegn Þrótti.  Hann varð þar með 13. leikmaðurinn sem skorar fyrir liðið í sumar en það er félagsmet.  Áður höfðu 12 leikmenn skorað fyrir Keflavík í efstu deild árin 1976 og 1977.

Guðmundur Steinars skoraði sitt 60. mark í efstu deild gegn Þrótti.  Hann varð þar með 22. leikmaðurinn til að ná þeim áfanga í efstu deild karla.  Þrír leikmenn sem leika í deildinni í sumar eru fyrir ofan Guðmund á listanum, Tryggvi Guðmundsson með 97 mörk, Arnar Gunnlaugsson með 65 og Grétar Hjartarson með 62 mörk.

- Tölfræðiupplýsingar eru fengnar úr bókaflokknum Íslensk knattspyrna eftir Víði Sigurðsson.