Fréttir

Knattspyrna | 16. júlí 2008

Hólmar Örn bestur hjá Stöð 2 Sport

Hólmar Örn Rúnarsson er besti leikmaður fyrri umferðar Landsbankadeildar karla að mati sérfræðinga Stöðvar 2 Sport.  Stöðin fór yfir gang mála í fyrstu ellefu umferðum deildarinnar í sumar í sérstökum þætti og m.a. völdu þeir Magnús Gylfason og Tómas Ingi Tómasson það sem þeim hefur helst fundist standa upp úr í deildinni.  Þeir töldu Hólmar Örn besta leikmanninn til þessa og völdu hann einnig í úrvalslið sitt ásamt Guðmundi Steinarssyni og Guðjóni Árna Antoníussyni.  Þá voru kaupin á Hólmari og Petrik Redo talin meðal bestu kaupa sumarsins en í þeim flokki voru einnig kaup KR-inga á Jónasi Guðna Sævarssyni.  Þá var gaman að heyra að Magnús og Tómas lýstu hrifningu sinni á spilamennsku og frammistöðu Keflavíkurliðsins í sumar.  Þeir hrósuðu einnig Kristjáni þjálfara hástöfum en völdu Ásmund Arnarson besta þjálfarann og þarf það ekki að koma á óvart eftir frábæran árangur hans með nýliða Fjölnis.  Hægt er að sjá meira um valið á Vísi.is.


Hólmar Örn er bestur að mati Söðvar 2 Sport.
(Mynd: Jón Örvar)