Fréttir

Knattspyrna | 31. ágúst 2006

Hólmar Örn farinn til Silkeborg

Keflavík og danska félagið Silkeborg hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Hólmars Arnar Rúnarssonar og hefur hann gengið til liðs við Silkeborg.  Hólmar heldur til Danmerkur strax eftir helgi.  Eins og fram hefur komið hafa félögin átt í samningaviðræðum nokkuð lengi en nú er niðurstaðan fengin og búið að semja um kaupverð sem bæði félög geta vel sætt sig við.  Lokað verður fyrir félagaskipti í kvöld og segja má að samið hafi verið á elleftu stundu.  Hólmar Örn hefur því þegar leikið sinn síðasta leik fyrir Keflavík, að minnsta kosti í bili.  Það er ljóst að hans verður saknað innan liðsins og meðal stuðningsmanna en við óskum honum að sjálfsögðu góðs gengis í Danmörku og vitum að Bói verður sér og heimabæ sínum til sóma.