Hólmar Örn með stórleik
Hólmar Örn Rúnarsson átti sannkallaðan stórleik með liði sínu Silkeborg í gærkvöldi. Hólmar skoraði fyrra mark liðsins strax á 2. mínútu í 2-0 sigri á AGF í æfingaleik á heimavelli Silkeborg. Kappinn lék á vinstri kantinum í leiknum og auk þess að skora lagði hann upp fjölmörg færi fyrir framherja liðsins og var óheppinn að skora ekki fleiri mörk. Honum var síðan skipt út af á 72. mínútu ásamt fleiri leikmönnum og þá kom Hörður Sveinsson inn á sem varamaður. Bjarni Ólafur Eiríksson lék allan leikinn fyrir Silkeborg. Hólmar hefur verið í góðu formi með Silkeborg og kemur greinilega sterkur til leiks á fyrsta heila leiktímabili sínu með félaginu.
Hólmar Örn í leik með Keflavík í sumar.
(Mynd: Jón Örvar Arason)