Fréttir

Knattspyrna | 5. desember 2005

Hólmar Örn til Trelleborg

Keflavík og sænska 1.deildarliðið Trelleborg hafa náð samkomulagi um félagaskipti Hólmars Arnar Rúnarssonar til sænska liðsins.  Gengið hefur verið frá kaupverðinu og því er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu Keflavíkur að Hólmar fari til sænska liðsins.  Pilturinn á hins vegar eftir að semja við Trelleborg en hann heldur til Svíþjóðar í vikunni til viðræðna um samninginn. 

Hólmar Örn verður 24 ára í vikunni en hann lék fyrst með meistaraflokki Keflavíkur árið 2000.  Síðan hefur hann leikið 89 deildarleiki fyrir félagið og skorað í þeim 15 mörk.  Hann hefur einnig leikið 15 bikarleiki og skorað þar 4 mörk auk fjögurra Evrópuleikja í sumar.  Hólmar hefur verið einn traustasti leikmaður Keflavíkurliðsins undanfarin ár og m.a. leikið alla deildarleiki liðsins síðustu 3 sumur.  Hólmar hefur leikið einn leik með U-21 árs landsliðið Íslands.


Hólmar Örn í Evrópuleiknum gegn Mainz í Frankfurt.
(Mynd:
Jón Örvar Arason)