Fréttir

Knattspyrna | 18. júní 2006

Hópferð til Noregs

Verulegar líkur verða teljast til þess að Keflavík leiki á móti Lilleström frá Noregi í annarri umferð UEFA Intertoto Cup laugardaginn 1. júlí n.k. eftir góðan heimasigur á Dungannon Swifts FC frá N-Írlandi 4-1.  Þegar hefur verið gengið frá flugi með Fokker 50 vél Flugfélags Íslands til Gardemoen flugvallar við Osló föstudaginn 30. júní og til baka að kveldi laugardags 1. júlí.  Gerðar hafa verið ráðstafanir vegna gistingar og rútuferða fyrir leikmenn, þjálfara, fararstjóra og væntanlega 16-18 stuðningsmenn sem áhuga hefðu á að koma með.  Á þessari stundu, sunnudaginn 18. júní, er ekki hægt að gefa upp nákvæman kostnað vegna ferðarinnar.  En miðað við kostnaðinn á slíkri ferð til Írlands 23.000 kr. á mann, flug, hótel, rúta og leikur verður Noregsferðin dýrari en samt mjög ódýr.  En þar sem skammur tími mun gefast til að ganga frá væntanlegri ferð eftir síðari leikinn á N-Írlandi laugardaginn 24. júní verður strax farið að bóka í laus sæti vegna fararinnar og staðfestingar síðan endanlega gerðar mánudaginn 26. júní, en þegar hafa nokkrar fyrirspurnir um ferðina komið til deildarinnar.  Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í ferðinni eru vinsamlegast beðnir að bóka sig og senda póst á póstfang Knattspyrnudeildar kef-fc@keflavik.is með nafni, síma, kennitölu, númeri vegabréfs, útgáfudegi og gildistíma.  Þar sem um leiguflug er að ræða þarf þessar upplýsingar fyrir yfirvöld í Noregi.  Fyrstir bóka, fyrstir fá. 

Fararstjórar.