Hörður með tvö mörk í stórsigri
Keflavík sigraði HK með fimm mörkum gegn einu í Lengjubikarnum á laugardaginn og tyllti sér í toppsætið í riðlinum. Liðið er langt komið með að tryggja sér sæti í 8 liða úrslitum.
Hörður Sveinsson skoraði strax á 10. mínútu með góðum skalla eftir góða fyrirgjöf Ómars Karls. Stuttu síðar skoraði Alen Sutej með góðu skoti og kom Keflavík í 2-0. Á 16. mínútu skoraði Hörður með skoti eftir góðan frábæran undirbúning hjá Magnúsi Sverrir. Keflavík skoraði því þrjú mörk á sex mínútna kafla og liðið var að spila fantavel. Rétt fyrir hálfleik skoraði varnarmaður HK svo sjálfsmark og staðan í hálfleik því 4-0 fyrir Keflavík.
Eftir tæpan klukkutíma leik minnkaði Jónas Grani Garðarsson muninn fyrir HK. Theodór Halldórsson, einn af okkar ungu leikmönnum, skoraði svo fimmta mark Keflavíkur þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Magnús Þór Magnússon reif sig þá í gegnum vörn HK og sendi á Theodór sem nýtti vel hraða sinn og kláraði færið. Vel unnið hjá þeim félögum. Þess má geta að Theodór hafði komið á sem varamaður á 87. mínútu og Magnús Þór reyndar nokkrum mínútum fyrr.
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Alen Sutej, Hólmar Örn Rúnarsson (Eyþór Ingi Einarsson 87.), Paul McShane (Theodór Halldórsson 87.), Magnús Sverrir Þorsteinsson (Andri Steinn Birgisson 46.), Ómar Karl Sigurðsson (Sigurður Sævarsson 52.), Hörður Sveinsson, Magnús Þórir Matthíasson (Magnús Þór Magnússon 82.)
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Örn Guðmundsson
Guðmundur Steinarsson, Haukur Ingi Guðnason, Jóhann Birnir Guðmundsson, Sigurbergur Elísson og Einar Orri Einarsson voru ekki í hóp vegna meiðsla.
Dómari: Erlendur Eiríksson og aðstoðardómarar þeir Einar Sigurðsson og Andri Vigfússon. Eftirlitsmaður: Gísli Hlynur Jóhannsson.
Næsti leikur í Lengjubikarnum og síðasti leikur okkar í riðlinum verður laugardaginn 17. apríl kl. 14:00 þegar ÍBV kemur í heimsókn í Reykjaneshöllina.
Markaskorarar Keflavikur: Alen, Theodór og Hörður.
(Mynd: Jón Örvar)