Fréttir

Knattspyrna | 7. júlí 2006

Hressir Leiknismenn

Þó okkar menn hafi sigrað Leikni nokkuð örugglega í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins voru Leiknismenn ekkert að ergja sig of mikið úrslitunum.  Á heimasíðu þeirra, leiknir.com, er skemmtileg umfjöllun um leikinn.  Sá sem þar skrifar viðurkennir að sigur Keflvíkinga hafi verið sanngjarn og bendir á að munurinn á úrvalsdeildarliði og 1. deildarliði hafi einfaldlega komið í ljós.

Í greininni er rætt aðeins um Hallgrím Jónasson sem hefur komið sterkur inn í stöðu vinstri bakvarðar í síðustu leikjum.  Hann gekk til liðs við Keflavík í vetur en gat lítið leikið framan af sumri vegna meiðsla.  Hallgrímur er upphaflega miðjumaður en kom óvænt inn sem bakvörður gegn Blikum.  Það verður að segjast alveg eins og er að fæstir áhorfendur á Keflavíkurvelli virtust átta sig á að Hallgrímur væri kominn í liðið en Leiknismenn koma einnig inn á það í umfjöllum um leikinn í gær.

„Þegar Branislav Milisevic kom inná fyrir Hallgrím Jónasson brá mörgum í brún, sérstaklega Pétri sem svipaðist grunsamlegur á svip um áður en hann spurði hvort þetta væri ekki örugglega sami leikmaðurinn sem var að fara aftur inná enda eru þeir félagar líkir mjög í útliti! Vakti þetta mikla kátínu hjá Pétri, sem og varamannabekkjunum tveimur.“

Heimamenn voru þó ekki alveg sáttir við framkomu okkar manna:
„Skömmu síðar gerðist mjög leiðinlegt atvik þegar Hólmar Örn Rúnarsson átti þrususkot framhjá markinu og beyglaði um leið nýja Glitnisskiltið fyrir aftan markið!! Algjör óþarfi hjá Hólmari enda um splunkunýtt skilti að ræða og er þetta mikið áfall fyrir Meistaraflokksráðið sem hafði unnið baki brotnu við að fá skiltið sett upp.“

Að lokum hvetjum við fólk til að kíkja á umfjöllunina á Leiknissíðunni.