Fréttir

Knattspyrna | 2. ágúst 2005

Hverjir eru 1. FSV Mainz 05?

Eins og fólki ætti að vera kunnugt leikur Keflavík gegn 1. FSV Mainz 05 frá Þýskalandi í næstu umferð UEFA-keppninnar.  Hér koma helstu upplýsingar um þessa næstu mótherja okkar.  Fyrri leikur liðanna verður í Þýskalandi 11. ágúst en sá síðari hér heima 25. ágúst.

1. FSV Mainz 05 var stofnað 16. mars 1905 og er því 100 ára í ár.  Liðið komst upp í Bundesliguna árið 2004.  Á síðasta leiktímabili enduðu þeir í 11. sæti deildarinnar með 43 stig í 34 leikjum, unnu 12 leiki, gerðu 7 jafntefli og töpuðu 15 leikjum og markatalan hjá þeim 50-55.  Stærsti sigur þeirra á síðasta tímabili var 5-0 gegn Freiburg á heimavelli.  Stærsta tapið kom í leik gegn Herthu Berlin, 0-3 einnig á heimavelli.  Stærsti útisigurinn var gegn Vfl Bochum 2-6.  Mainz vann á síðasta tímabili lið eins og Kaiserslautern, Bochum, Hannover, Schalke 04, Hansa Rostock, Werder Bremen og Bayer Leverkusen.  Til gamans má geta að liðið tapaði báðum leikjum sínum gegn Bayern Munchen með sömu markatölu, eða 4-2, og þeir töpuðu einnig báðum leikjunum gegn Stuttgart 3-2 og 4-2.  Það er greinilega mikið skorað í leikjum  FSV Mainz 05 og oftast mikið fjör á vellinum hjá þeim.  Alls skoraði  FSV Mainz liðið 50 mörk á s.l. tímabili og nítján leikmenn skoruðu þessi mörk.  Markahæstir í liðinu voru þeir Fabian Gerber með 7 mörk, Michael Thurk og Benjamin Auer með 6, Antonio de Silva með 5 og Christof Babatz og Mathias Abel með 4 mörk hvor.  Þjálfari liðsins er Jurgen Klopp, 38 ára gamall, og lenti hann í öðru sæti yfir þjálfara ársins í Þýskalandi á eftir Felix Magath þjálfara Bayern Munchen sem vann bæði deild og bikar.

Við munum spila útileikinn fyrst og það er enginn smávöllur þar á ferð. Mainz ætlar að spila leikinn á Commerzbank-Arena í Frankfurt sem tekur aðeins 52.000 manns í sæti!  Völlurinn verður notaður á HM 2006 og var notaður í Álfukeppninni í ár.  Völlurinn er yfirbyggður og er alveg ótrúlega fallegt mannvirki en hann var endurbyggður 2004.  Það verður bara gaman að mæta þessu liði og spila á þessum glæsilega velli í Frankfurt og má búast við markaveislu af hálfu beggja liða.  Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá vellinum. 

Eins og Kristján þjálfari orðaði í Morgunblaðinu s.l. laugardag að þetta yrði ánægjulegt en erfitt.  Þetta er þægilegt ferðalag, það verður gaman að takast á við harða þýska knattspyrnumenn og við horfum fyrst og fremst á þetta sem krydd í tilveruna.  Þrátt fyrir að augljóst sé að við séum að fara spila gegn feykisterkum andstæðingum munum við ekki gefa neitt eftir í leikjunum og munum freista þess að skora gegn hinum hávöxnu Þjóðverjum á útivelli en FSV Mainz 05 er það lið í Bundesligunni sem hefur hvað flesta Þjóðverja innanborðs af öllum liðum í deildinni.

Ferðatilhögun Keflavíkurliðsins er sú sama og er farið var til Lúxemborgar.  Flogið til Frankfurt á þriðjudeginum 9. ágúst með Iceland Express og til baka á föstudeginum 12. ágúst í gegnum Stansted.  Hætt er við að færa þurfi til leik Keflavíkur gegn Val á Hlíðarenda sem fyrirhugaður er 14. ágúst.  Það er eindregin ósk allra leikmanna og þjálfara Keflavíkur að stuðningsmenn liðsins missi ekki af þessum einstæða viðburði og komi með til Frankfurt og upplifi leikinn, stemmninguna og völlinn.  Keflavík leikur ekki svona leiki á hverju ári!!!

Áfram Keflavík í Evrópu! 

Samantekt : Jón Örvar Arason