Hverjir eru þessir Dungannon Swifts?
Laugardaginn 17. júní tökum við á móti Dungannon Swifts frá Norður-Írlandi í 1. umferð InterToto-keppninnar. Leikurinn fer fram á Keflavíkurvelli og hefst kl. 17:00. Það er því upplagt að skella sér á völlinn og gera leikinn að hluta af þjóðhátíðarhöldunum þetta árið. Seinni leikurinn fer fram viku síðar, laugardaginn 24. júní, í Lurgan í nágrenni Dungannon.
Andstæðingar okkar eru kannski ekki þekktasta félagið sem við höfum leikið gegn en lið Dungannon er frá samnefndum bæ í Tyrone-sýslu á Norður-Írlandi. Á írsku heitir bærinn Dún Geanainn en íbúar hans eru um 12.000. Bæjarbúar hafa helst stundað rugby í gegnum árin en þess má geta að golfarinn Darren Clarke er fæddur í Dungannon.
Dungannon Swifts var stofnað árið 1949 og lék lengst af í utandeildum. Það var ekki fyrr en upp úr 1970 að félagið hóf að leika í deildarkeppninni og árið 2003 léku Dungannon-menn svo í fyrsta skipti í efstu deild. Þar hefur árangur liðsins verið framar vonum og það tryggði sér sæti í InterToto-keppninni með því að ná 4. sæti nú í vor.
Heimavöllur Dungannon heitir Stangmore Park og var vígður árið 1975. Völlurinn tekur reyndar aðeins 3.000 manns og uppfyllir ekki kröfur UEFA varðandi leiki í Evrópukeppnum. Heimaleikur þeirra gegn Keflavík verður því á Mourneview Park sem er heimavöllur Glenavon. Þess má geta að nafn liðsins er dregið af fugli nokkrum sem er algengur á heimaslóðum Dungannon-manna. Fuglinn má m.a. sjá í merki félagsins, hann er líkur svölu í útliti og mun heita svölungur á íslensku.
Ekki vitum við mikið um leikmenn Dungannon. Í vetur lék einn útlendingur með liðinu, Pedro Delgado frá Venezúela. Aðrir eru Norður-Írar sem hafa leikið með liðum þar í landi en nokkrir hafa reynt fyrir sér í neðri deildunum í Englandi. Svo er bara að sjá hvernig okkar strákum gengur að eiga við þessa kappa á laugardaginn...