Fréttir

Í toppsætinu eftir góðan heimasigur
Knattspyrna | 13. maí 2014

Í toppsætinu eftir góðan heimasigur

Keflavík er í toppsæti Pepsi-deildarinnar eftir þrjár umferðir og er eina liðið sem hefur unnið alla þrjá leiki sína.  Þetta varð ljóst eftir góðan 2-0 sigur gegn Breiðabliki á Nettó-vellinum.  Fyrri hálfleikur var markalaus en þegar um fjórðungur var liðinn af seinni hálfleik kom Elías Már Ómarsson okkar mönnum yfir eftir þunga sókn.  Um tíu mínútum fyrir leikslok var Elías Már aftur á ferðinni og skoraði eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn gestanna.  Það er óhætt að segja að sigurinn hafi verið sanngjarn enda voru strákarnir að spila prýðilega og fengu góðan stuðning áhorfenda sem fjölmenntu á völlinn.

Eins og áður sagði er Keflavík nú í 1. sæti deildarinnar og hefur níu stig stig eftir þrjá leiki.

Næsti leikur er heimaleikur gegn KR á Nettó-vellinum sunnudaginn 18. maí kl. 19:15.

Leikskýrsla á KSÍ.is

Myndir frá leiknum (fleiri myndir koma síðar)

  • Þetta var 51. leikur Keflavíkur og Breiðabliks í efstu deild.  Keflavík hefur nú unnið 23 leiki en Breiðablik hefur sigrað í 17 leikjum, 11 sinnum hefur orðið jafntefli.  Markatalan er 92-73 fyrir Keflavík.
     
  • Elías Már Ómarsson gerði fyrstu mörk sín í sumar og hann er nú kominn með fjögur mörk í efstu deild í 19 leikjum.  Þess má geta að mörkin fjögur hafa öll komið gegn Breiðablik en Elías Már skoraði í báðum leikjunum gegn Blikum í fyrra.
     
  • Andri Fannar Freysson og Ray Anthony Jónsson komu inn á sem varamenn og léku í fyrsta skipti i sumar.
     
  • Magnús Þorsteinsson var í fyrsta skipti í byrjunarliði í sumar en hann kom inn á sem varamaður í síðasta leik en tók ekki þátt í fyrsta leiknum.
     
  • Ray Anthony Jónsson kom inn í leikmannahópinn í fyrsta skipti í sumar en Hörður Sveinsson og Jóhann Birnir Guðmundsson voru ekki með vegna meiðsla.
     
  • Fyrirliðinn Haraldur Freyr Guðmundsson lék sinn 150. deildarleik fyrir Keflavík en hann lék fyrsta leik sinn árið 1999, einmitt gegn Blikum.  Þar af eru 132 leikir í efstu deild þar sem kappinn hefur skorað sex mörk en auk þess lék Haraldur á sínum tíma 18 leiki í B-deildinni og gerði þar tvö mörk.
     
  • Keflavík vann fyrsta heimaleikinn gegn Breiðabliki síðan 2008.  Síðan hafði Breiðablik unnið fjóra leiki í Keflavík og einum leik lokið með jafntefli.  Breiðablik hafði sigrað í síðustu þremur leikjum liðanna í efstu deild.
     
  • Keflavík hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína í deildinni en það gerðist síðast árið 2010.
     

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir og Jón Örvar Arason