Ian Ross
Mig langar aðeins að minnast Ian Ross, eða Roscoe eins og hann var jafnan kallaður, en hann lést 9. febrúar síðastliðin í Liverpool.
Haustið 1993 var ég alvarlega að hugsa um að hætta í fótbolta vegna þrálátra meiðsla. Sem betur fer gerði ég það ekki og má segja að fyrir því sé ein ástæða, Ian Ross. Þetta haust var ég á ferðalagi í Bandaríkjunum með nokkrum vinum eftir keppnistímabilið. Ekki var búið að ganga frá ráðningu nýs þjálfara fyrir næstkomandi tímabil en orðrómur var uppi um að Ian Ross, sem hafði gert góða hluti með Val og KR, væri á leið til okkar í Keflavík. Við ræddum þessa mögulegu ráðningu fram og tilbaka í Bandaríkjunum og til að gera langa sögu stutta þá sannfærði Sigurður Björgvinsson mig um að mér myndi líka afar vel við Ian Ross og mjög líklega yrði það gagnkvæmt. Hið fyrra reyndist rétt, það seinna get ég ekki dæmt um.
Fyrstu kynni og samskipti mín af Roscoe voru frábær og mörkuðu djúp spor í huga minn. Við æfðum um veturinn í íþróttahúsinu á Sunnubraut, oft 11 á móti 11, við afar þröngar aðstæður. Eftir eina æfinguna kallar Roscoe á mig og vildi segja við mig nokkur orð. Aldrei hefur nokkuð haft jafn mikil áhrif á mig og það sem Roscoe sagði: ,,Son! When you win the ball play it to the nearest person in blue and you will always look great.“ Eftir að hafa lokið máli sínu sneri Roscoe sér við og skildi mig eftir, hugsandi. Einfalt og áhrifaríkt. ,,Man management” í sinni bestu mynd. Roscoe var góður mannþekkjari, og myndi ég segja að það hafi verið einn hans allra besti kostur.
Roscoe var fljótur að sjá veikleika og styrkleika manna. Hann sá strax að ég var ekki undrabarn með boltann en að ég hefði aðra kosti sem gætu nýst liðinu.
Vetraræfingarnar voru annað hvort inni í íþróttahúsi eða á snævi þökktum malavellinum. Roscoe var nánast alltaf með á æfingum klæddur stuttbuxum og léttri treyju, grjótharður og alltaf tilbúinn að fá boltann. Á stundum vorum menn þreyttir á því. ,,Hættum að senda alltaf á karlinn,” sagði einn af okkar reyndari mönnum eitt sinn.
Sumarið 1994 rennur mér seint úr minni. Það var eitt allra skemmtilegasta tímabil sem ég hef upplifað og þakka ég Ian Ross það að mörgu leyti, ásamt því auðvitað, að í hópnum voru margir af mínum bestu vinum og félögum. Á Keflavíkurvelli þetta sumar hljómuðu skemmtilegar setningar á borð við ,,Crap ball Kiddi", ,,different class my son", ,,play it simple", ,,don´t try to be clever", ,,you can´t play football on your backside.” Allar þessar setningar voru sagðar við mismunandi menn þannig að setningin ,,crap ball” átti við um fleiri en mig án þess að ég nefni einhver nöfn.
Í lokin langar mig að segja frá einu atviki sem lýsti Roscoe nokkuð vel, en hann var oft að ,,testa” mann. Athuga viðbrögð og hvar hugurinn lægi. Keflavík stóð í ströngu í úrslitakeppninni í körfunni þarna um vorið. Einhverjir leikmenn vildu fara á leik í stað þess að fara út á gaddfreðna mölina að æfa. Roscoe hafði frétt af þessum áhuga og kom til mín og sagði að ég mætti fara á leikinn hans vegna, þetta væri jú liðið mitt í körfunni. Ég sagðist ætla að skoða þetta og þakkaði fyrir mig. Ég var samt ekki viss hvað ég ætti að gera. Birgir Runólfsson, stjórnarmaður í knattspyrnuráði, benti mér á í spjalli að Roscoe væri að ,,testa” mig!!! Ég ákvað því að mæta á æfinguna. Roscoe kom til mín fyrir æfingu smá hissa og segir ,,why didn´t you go to the game son?” Ég sagði honum að fótboltinn gengi fyrir, svar Roscoe var einfalt: ,,you made the right decision son.”
Ian Ross náði mjög vel til mín sem þjálfari. Honum á ég því mikið að þakka. Roscoe var sanngjarn, heiðarlegur og var með mjög einfaldar og skemmtilegar æfingar. Það var því afar sárt að sjá á eftir honum í byrjun júli sumarið 1994.
Blessuð sé minning Ian Ross
Kristinn Guðbrandsson