ÍBV - Keflavík á fimmtudag kl. 19:15
Fimmtudaginn 8. júlí leika ÍBV og Keflavík í 11. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn fer fram á Hásteinsvelli og flautað verður til leiks kl. 19:15. Fyrir leikinn eru okkar menn í 3. sæti deildarinnar með 19 stig, stigi á eftir Eyjamönnum og Blikum sem deila efsta sætinu. Þetta verður því sannkallaður toppslagur í Eyjum og þar að auki munar fáum stigum á liðunum í efri hluta deildarinnar. Dómari leiksins verður hinn stórskemmtilegi Gunnar Jarl Jónsson og aðstoðardómarar hans þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Guðmundur Ársæll Guðmundsson. Þórður Georg Lárusson er svo eftirlitsmaður KSÍ.
Keflavík og ÍBV hafa leikið eina 59 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1968. Eyjamenn hafa þar aðeins betur og hafa unnið 25 leiki, okkar menn hafa sigrað 22 sinnum en 12 leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 89-99, ÍBV í vil. Stærsti sigur Keflavíkur gegn ÍBV kom í lokaleiknum í fyrra en honum lauk með 6-1 sigri á heimavelli. Eyjamenn sigruðu 6-1 árið 1972 og 5-0 árið 2000. Mestu markaleikur þessara liða eru tveir heimasigrar hjá Keflavík, 5-3 sigur árið 1971 og 6-2 leikur árið 2006. Sex leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn ÍBV í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað sex mörk, Haukur Ingi Guðnason og Hörður Sveinsson þrjú, Jóhann Birnir Guðmundsson tvö og þeir Alen Sutej og Haraldur Freyr Guðmundsosn hafa gert eitt mark hvor.
Liðin hafa mæst 9 sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1968 og síðast árið 1999. Keflavík hefur unnið 3 bikarleiki en Eyjamenn 5. Einum leik lauk með jafntefli og það er auðvitað hinn frægi bikarúrslitaleikur á Laugardalsvelli árið 1997. Markatalan í bikarnum er 14-16 fyrir Eyjamenn.
Liðin léku tvo leiki í Pepsi-deildinni í fyrra eins og lög gera ráð fyrir. Fyrri leiknum í Vestmannaeyjum lauk með 2-2 jafntefli þar sem Haukur Ingi Guðnason gerði bæði mörk Keflavíkur en Eiður Aron Sigurbjörnsson og Andri Ólafsson gerðu mörk heimamanna. Eins og áður sagði vann Keflavík seinni leikinn 6-1 á sínum heimavelli og landaði þar með stærsta sigrinum gegn ÍBV í efstu deild. Guðmundur Steinarsson og Símun Samuelsen gerðu tvö mörk hvor fyrir Keflavík og varnarjaxlarnir Alen Sutej og Haraldur Freyr Guðmundsson komust báðir á blað. Yngvi Borgþórsson gerði mark ÍBV í leiknum.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og ÍBV, auk þess sem Kjartan nokkur Másson þjálfaði bæði liðin á sínum tíma. Bjarni Hólm Aðalsteinsson gekk til liðs við okkur í fyrra vor frá Vestmannaeyjum en áður höfðu varnarjaxlarnir Valþór Sigþórsson og Jakob Jónharðsson leikið með báðum liðum sem og Zoran nokkur Ljubicic. Rútur Snorrason lék nokkra leiki með Keflavík áður en hann varð að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla en Rútur hafði áður leikið um árabil með ÍBV.
Úrslit í leikjum ÍBV og Keflavíkur í Eyjum hafa orðið þessi undanfarin ár:
2009 |
ÍBV - Keflavík |
1-1 | Haukur Ingi Guðnason 2 | ||
2006 |
ÍBV - Keflavík |
2-1 | Símun Samuelsen | ||
2005 |
ÍBV - Keflavík |
2-3 | Hörður Sveinsson Guðmundur Steinarsson Ingvi Rafn Guðmundsson | ||
2004 |
ÍBV - Keflavík |
4-0 | |||
2002 |
ÍBV - Keflavík |
1-2 | Þórarinn Kristjánsson Guðmundur Steinarsson | ||
2001 |
ÍBV - Keflavík |
1-0 | |||
2000 |
ÍBV - Keflavík |
5-0 | |||
1999 |
ÍBV - Keflavík |
1-0 | |||
1998 |
ÍBV - Keflavík |
1-0 | |||
1997 |
ÍBV - Keflavík |
5-1 | Jóhann B. Guðmundsson |