Ingvi Rafn 25 ára
Ingvi Rafn Guðmundsson heldur í dag upp á 25 ára afmælið og í tilefni dagsins lögðum við nokkrar spurningar fyrir drenginn. Eins og stuðningsmenn Keflavíkur vita er Ingvi Rafn kominn á ferðina eftir langa og erfiða meiðslasögu. Við óskum Ingva til hamingu með daginn og vonumst til að sjá hann á fullu á knattspyrnuvellinum í sumar.
Sæll Ingvi og til hamingju með 25 ára afmælisdaginn. Það er ekki á hverjum degi sem 25 ára afmælisdagur manns ber upp á sunnudag, hvernig hefurðu það?
Ég hef það nú bara alveg þokkalegt, svona miðað við aldur og fyrri störf!
Nú hefur frést af þér sprækum á æfingum nú eftir áramót og þú hefur jafnvel verið að spila hluta úr æfingaleikjum með Keflavík undanfarið, hvernig er staðan á þér?
Ég hef verið ágætur hingað til. Eðlilega eru dagarnir misjafnir en frá áramótum hef ég verið tiltölulega fljótur að jafna mig eftir æfingar, þ.e.a.s. ef ég hef fengið einhverja verki á æfingunum. Það er bæting frá því í fyrra vegna þess að í fyrra var ég stundum með verk í 2-3 daga eftir á.
Megum við eiga von á því að sjá þig á Keflavíkurvellinum í sumar og leika fyrir Keflavík í Úrvalsdeildinni?
Það er klárlega stefnan í dag og við skulum vona að það gangi eftir en hinsvegar er ekkert gefið í þessum bransa eins og við höfum fengið að kynnast í gegnum tíðina.
Nú hefur þetta verið geysilegt áfall fyrir þig að meiðast svona illa svo snemma á lofandi knattspyrnuferli. Hvað fer eiginlega í gegnum huga þess sem lendir í svona áfalli...? Og hvað er það sem hefur komið þér í gegnum þennan erfiða tíma á þann stað sem þú ert á núna?
Í fyrstu verður maður að sætta sig við það um leið að maður verði hugsanlega frá í einhvern tíma og það var það sem ég gerði. En það er aldrei hægt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér og við sáum það aldrei fyrir að þetta yrði svona erfitt og tæki langan tíma. Áætlað var að ég yrði frá í 6 mánuði en annað kom á daginn. Satt að segja veit ég ekki nákvæmlega hvað hefur komið mér í gegnum þennan erfiða tíma. Ætli það hafi ekki verið fólkið í kringum mig? Eins og einn ágætur maður sagði „Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.“
Hvernig líst þér á Keflavíkurliðið fyrir næsta keppnistímabil? Megum við eiga von á svipuðu spennusumri í ár og við fengum að upplifa síðasta sumar?
Mér líst vel á það. Næsta tímabil verður engu síðra en síðasta tímabil og ég vona að Keflavíkurliðið verði á svipuðu róli núna í sumar.
Hvernig á svo að eyða afmælisdeginum?
Ætli ég verði ekki í rólegheitunum heima fyrir. Ég reyni líklega hvað ég get til að láta kvenfólkið stjana við mig þrátt fyrir að þær séu búnar að eigna sér þennan dag! (Konudagurinn!!!)
Þakka þér fyrir, Ingvi. Þú veist að allir stuðningsmenn Keflavíkur hugsa hlýtt og jákvætt til þín og óska þess að þú birtist aftur sprækur á knattspyrnuvellinum sem allra, allra fyrst svo hægt verði að kyrja sigursöngva um þig í stúkunni...
Takk kærlega fyrir mig!
Hér fylgja svo nokkrar myndir úr safni Jóns Örvars sem hefur komið þó nokkuð við sögu hjá Ingva og m.a. fylgt honum í aðgerðir erlendis.
Ingvi Rafn.
Ingvi kom inn á í sigurleik gegn KR sumarið 2007.
Í Hollandi 2006.
Félagarnir Ingvi og Jón Örvar. En hver tók þá myndina...?
Ingvi gefur æstum aðdáendum eiginhandaráritanir árið 2006.
Canela vorið 2006.
Handboltatilþrif í Canela.
Ingvi Rafn skorar í hinum örlagaríka leik gegn ÍBV árið 2005.
Markinu fagnað.
Á 54. mínútu og Ingvi liggur illa brotinn.
Mönnum var illa brugðið...
Hinn eini sanni Ingvi Rafn.