Ingvi Rafn Guðmundsson skoraði mark Íslands í leik U-21 árs landsliðsins gegn Króatíu á heimavelli þeirra á föstudaginn langa. Mark Ingva Rafns kom á 45. mínútu og var laglega að því staðið. Ingvi Rafn fékk boltann á auðum sjó rétt utan markteigs og varð ekki á nein mistök er hann renndi knettinum laglega framhjá markverði Króata. Því miður náðu Króatar að jafna strax fyrir hlé í uppbótartíma og skoruðu síðan sigurmarkið seint í síðari hálfleik eftir að Hannes Þ. Sigurðsson hafði átt skot í stöng Króata. Frammistaða Ingva Rafns í þessum leik og leikjum í Deildarbikarnum gefa tilefni til bjartsýni fyrir sumarið en Ingvi Rafn er bráðefnilegur leikmaður sem ætti að springa út í sumar. ási