Fréttir

Knattspyrna | 11. júlí 2005

Ingvi Rafn skrifar undir

Ingvi Rafn Guðmundsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Keflavík.  Eins og flestir vita fótbrotnaði Ingvi í upphafi Íslandsmótsins og getur ekki leikið meira með á þessu tímabili.  Hins vegar er það mikill fengur fyrir Keflavík að pilturinn hafi nú þegar framlengt samning sinn við félagið enda um einn efnilegasta knattspyrnumann landsins að ræða.  Ingvi Rafn var að leika feykivel á undirbúningstímabilinu og í upphafi móts.  Það var því mikið áfall fyrir hann og liðið þegar hann meiddist.  Ingvi er hins vegar allur að koma til eftir meiðslin og ljóst að hann kemur sterkur til leiks á næsta tímabili. 

Ingvi, sem er 21 árs að aldri, hefur leikið með Keflavík allan sinn feril.  Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 2002 og hefur þegar leikið 25 deildar- og bikarleiki fyrir félagið.  Hann hefur einnig leikið með U-19 og U-21 ára landsliðum Íslands og var einmitt búinn að festa sig í sessi sem fastamaður í U-21 árs liðinu í vor.  Við vonum að Ingva gangi vel að jafna sig af meiðslunum og hlökkum til að sjá hann aftur á knattspyrnuvellinum.


Rúnar formaður og Ingvi Rafn skrifa undir samninginn.
(Símamynd: Hjörleifur Stefánsson)