Íslandsmót innanhúss hjá 5. flokki karla
Keflavík lék á Íslandsmótinu innanhús s.l. laugardag í Framheimilinu og stóðu piltarnir sig með miklum sóma. Fyrsti leikur var gegn Valsmönnum og fóru piltarnir rólega af stað og var markalaust í hálfleik. Í seinni hálfleik fóru piltarnir í gírinn og sigruðu örugglega 4-0. Næsti leikur var gegn heimamönnum í Fram. Það sama var upp á teningnum í þessum leik, róleg byrjun og markalaust í hálfleik. Það var ekki fyrr en um miðjan seinni hálfleik að hlutirnir fóru að gerast. Þá tók dómarinn til sinna ráða og sýndi einum leikmanni Keflavíkur gult spjald fyrir að sparka knetti í burtu, og vísaði leikmanninum jafnframt út af í 2 mínútur!!! Þessi dómur var með öllu óskiljanlegur. Í knattspyrnureglunum segir að fyrir að sparka knetti í burtu (þegar bolti er ekki í leik) skal áminna leikmann en ekki reka út af. Eftir að hafa leitað skýringa hjá dómaranum við þessum dómi tilkynnti hann þjálfara að honum þætti nú ekki viðeigandi að ræða reglur og dómgæslu þegar KEFLVÍKINGAR ættu í hlut!! Þvílíkt virðingarleysi hjá fullorðnum manni. Greinilegt að hann hefur lent í slæmri dómgæslu í Keflavík einhvern tímann og viljað borga fyrir það. Við það að vera einum færri bitu piltarnir frá sér og börðust eins og grenjandi ljón og innbyrtu glæsilegan 2-0 sigur.
Næsti leikur var gegn Breiðablik sem var einnig taplaust og hafði ekki fengið á sig mark frekar en Keflvíkingar. Leikurinn var mjög fjörugur og mikil barátta í leikmönnum beggja liða. Blikar byrjuðu vel og komust í 1-0 á fyrstu mínútu leiksins en Ási Skagfjörð Þórhallsson jafnaði með bylmingsskoti af löngu færi rétt fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik fengu bæði lið fjölda góðra færa án þess að koma knettinum í netið framhjá góðum markvörðum, lokatölur 1-1.
Það var því ljóst fyrir síðasta leik Keflavíkur gegn Snæfellsnes að til að sigra riðilinn og komast í úrslit þyrfti 14-0 sigur! Piltarnir ætluðu sér að skora nokkur mörk í hverri sókn en slíkt lofar aldrei góðu. Piltarnir frá Snæfellsnesi voru mjög sprækir í þessu móti og veittu Keflvíkingum mikla mótspyrnu og endaði leikurinn með jafntefli 2-2. Keflavíkurpiltar eiga mikið hrós skilið fyrir vasklega framgöngu og voru þeir ekki fjarri því að sigra riðilinn, en það gengur bara betur næst.
Lið Keflavíkur var þannig skipað: Ási Skagfjörð Þórhallsson, Axel Pálmi Snorrason, Björn Elvar Þorleifsson, Einar Þór Kjartansson, Eyþór Guðjónsson, Elías Már Ómarsson, Ívar Gauti Guðlaugsson, Leonard Sigurðarson, Róbert Freyr Samaniego og Samúel Kári Friðjónsson.
Hægt er að sjá lokastöðu og úrslit leikja má finna á heimasíðu KSÍ.
Gunnar Magnús Jónsson,
þjálfari