Íslensk knattspyrna 2005 komin út
Bókin Íslensk knattspyrna 2005 eftir Víði Sigurðsson, íþróttafréttamann á Morgunblaðinu, er komin út og er þetta 25. bókin í þessum bókaflokki sem hóf göngu sína árið 1981.
Bókin í ár er 224 blaðsíður, þar af 64 í lit, og er því stærri og litskrúðugri en nokkru sinni fyrr. Fjallað er ítarlega um Landsbankadeildir karla og kvenna, landsleiki, Evrópuleiki og VISA-bikarinn, einnig um neðri deildirnar, yngri flokka, deildabikarinn, Reykjavíkurmótið, innanhússmót og atvinnumennina, með meiru. Þá er afrekum Eiðs Smára Guðjohnsens gerð góð skil. Mörg viðtöl eru í bókinni, þau stærstu við Þóru B. Helgadóttur og Auðun Helgason. Ennfremur er að finna litmyndir af meistaraliðum í öllum flokkum á Íslandsmótinu.
Bókin er gefin út í samstarfi Bókaútgáfunnar Tinds og KSÍ og í henni er að finna úrslit allra leikja í KSÍ-mótum á árinu. Um 320 myndir eru í bókinni.
Við óskum Víði til hamingju með bókina sem er auðvitað ómissandi jólagjöf fyrir alla knattspyrnuáhugamenn.