Íslensk knattspyrna 2010 komin út
Bókin Íslensk knattspyrna 2010 eftir Víði Sigurðsson er komin út hjá Bókaútgáfunni Tindi. Þetta er þrítugasta árið í röð sem árbókin um íslenska fótboltann er gefin út en sú fyrsta leit dagsins ljós árið 1981. Bókin er 240 blaðsíður og þar af eru nú 96 síður í lit, fleiri en nokkru sinni fyrr, og hefur litasíðum fjölgað um sextán frá síðasta ári. Þess má geta að fyrsta bókin sem kom út árið 1981 var 88 síður í heildina.
Bókin er jafnframt myndskreytt með um 340 myndum, og þar eru m.a. litmyndir af meistaraliðum ársins í öllum flokkum, öllum liðum í efstu deild karla ásamt mörgum fleirum.
Í bókinni er fjallað um allt sem gerðist í íslenskum fótbolta á árinu 2010. Mjög ítarlega er sagt frá gangi mála á Íslandsmótinu í öllum deildum og flokkum. Mest að sjálfsögðu um efstu deildir karla og kvenna, og 1. deild karla, þar sem gangur mála er rekinn frá umferð til umferðar, en líka um keppni í 2. og 3. deild karla og 1. deild kvenna.
Hægt er að sjá hverjir spiluðu með hvaða einasta liði í öllum deildum, hvað þeir léku marga leiki og hve mörg mörk þeir skoruðu og miklar upplýsingar er að finna um félögin og leikmennina.
Þá er fjallað mjög ítarlega um alla landsleiki Íslands, bæði hjá A-landsliðum karla og kvenna og yngri landsliðum, um bikarkeppnina, Evrópuleikina, sagt frá öllum Íslendingum sem leika sem atvinnumenn erlendis, og frásagnir af öðrum mótum og viðburðum á árinu.
Stór viðtöl eru í bókinni við Alfreð Finnbogason úr Breiðabliki sem var valinn besti leikmaður Íslandsmóts karla, og við Rakel Logadóttur, Íslandsmeistara með Val og landsliðskonu. Ennfremur er rætt við Eyjólf Sverrisson þjálfara 21-árs landsliðs Íslands um frábæra frammistöðu þess.
Á kynningarfundi vegna bókarinnar þann 1. desember sl. var stoðsendingakóngur ársins 2010 heiðraður, ásamt þeim sem voru í 2.-4. sæti yfir stoðsendingar í Pepsi-deild karla 2010. Þessu eru gerð góð skil í bókinni. Ennfremur fékk Eyjólfur Sverrisson þjálfari 21-árs landsliðs karla heiðursverðlaun Tinds fyrir árið 2010.
Höfundur bókarinnar er Víðir Sigurðsson, íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, sem hefur skrifað bókina samfleytt frá árinu 1982. Sigurður Sverrisson skrifaði fyrstu bókina árið 1981 og hann og Víðir sáu í sameiningu um bókina 1982.